Jarðskjálfti, 5,3 að stærð, varð 18,1 km norðvestur af Gjögurtá klukkan 15:05. Skjálftinn fannst vel á Siglufirði, Akureyri, Ólafsfirði, Hrísey og á Hofsósi. Fjöldi eftirskjálfta hefur komið í kjölfarið, sex þeirra stærri en 3 og sá stærsti 3,9.
Fyrstu mælingar bentu til að skjálftinn væri á bilinu 5,2 til 5,6 að stærð en yfirfarin gögn sýna að skjálftinn var af stærðinni 5,3.
Skjálftahrina hefur staðið yfir á Tjörnesbrotabeltinu síðan um hádegi í gær en á milli klukkan sjö og átta í gærkvöldi færðist aukið líf í hrinuna. 33 skjálftar yfir 3 að stærð hafa orðið síðan klukkan sjö í gærkvöldi.
Skjálftar á svæðinu eru orðnir um 450 á innan við sólarhring. Almannavarnir segja viðbúið að fleiri stærri skjálftar geti orðið á svæðinu og þetta sé því góð áminning fyrir íbúa og þá sem þarna eru staddir að yfirfara varnir og viðbúna vegna. Bakvakt á vegum almannavarna er til taks ef þörf er á.
Fréttin hefur verið uppfærð.