„Þetta var stór dagur“

Skimað fyrir veirunni á Keflavíkurflugvelli.
Skimað fyrir veirunni á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Alls lenda ellefu flugvélar á Keflavíkurflugvelli í dag og kvöld, en það er mesti fjöldi véla frá því að skimun fyrir kórónuveirunni hófst á vellinum 15. júní. 

Flestar vélarnar koma frá Evrópu, þar af tvær frá Póllandi, en ein vél kemur frá Boston nú klukkan 22. Þá koma hingað vélar frá Amsterdam og Varsjá síðar í kvöld ásamt því að von er á flugi frá Prag skömmu eftir miðnætti í kvöld. 

„Þetta var stór dagur. Hann hefur gengið mjög vel, mikill fjöldi farþega fór í gegn. Ætli það séu ekki komnir um sjö- til áttahundruð manns og svo verða einhverjir í kvöld,“ segir Jórlaug Heimisdóttir fulltrúi Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu í skimunarverkefninu. 

Börn yngri en 15 ára þurfa ekki að fara í skimun. Þá þurftu farþegar sem komu með vél Air Greenland frá Nuuk ekki að fara í skimun. 

Jórlaug segir ferlið ganga vel. Mikilvægt sé að farþegar forskrái sig fyrir komuna. 

„Fólk er að forskrá sig, það er rosalega mikilvægt. Það eru flestir forskráðir úr Icelandair vélunum, kannski minna úr Wizz air vélunum því Icelandair fylgir þessu svo vel eftir. En það er mjög mikilvægt að fólk forskrái sig svo þetta gerist hraðar,“ segir Jórlaug. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert