„Fáránlegt að ég sé að fá borgað fyrir þetta“

„Þetta er það sem ég vil gera. Það er eiginlega …
„Þetta er það sem ég vil gera. Það er eiginlega bara fáránlegt að ég sé að fá borgað fyrir þetta því ég myndi gera þetta frítt. Þetta er bara best í heimi!“ segir Kristín Viðja, hvalaþjálfari í mjaldraathvarfinu í Vestmannaeyjum. mbl.is/Rósa M.

„Ég er svo spennt að sjá hvernig þær taka við sér þarna úti. Hvernig þær muni bregðast við umhverfinu. Þetta er rosalega spennandi en þetta er pínu ógnvekjandi,“ segir Kristín Viðja Harðardóttir, 26 ára íslenskur hvalaþjálfari í hvalaathvarfi Sea Life Trust í Vestmannaeyjum. Mjaldrarnir tveir, Litla-Grá og Litla-Hvít, verða loks færðir í kvína í Klettsvík í næstu viku, fyrsta griðasvæði mjaldra í heimi.

Þetta staðfesta Kristín Viðja og Au­d­rey Padgett framkvæmdastjóri Sea Life Trust í Vestmannaeyjum en nákvæm dagsetning á flutningnum hefur enn ekki verið gefin út. Blaðamaður K100.is heimsótti mjaldrana og þjálfara þeirra í heimsókn K100 í Vestmannaeyjum á föstudag en þá var einmitt ár síðan hvalirnir komu fyrst til landsins. 

Mjaldrafrænkurnar njóta þess að fá klapp frá Kristínu og sækja …
Mjaldrafrænkurnar njóta þess að fá klapp frá Kristínu og sækja í samskipti við fólk enda hafa þær verið í kringum fólk nánast allt sitt líf. mbl.is/Rósa M.

„Auðvitað hefur maður alltaf áhyggjur. Þú sérð alveg hvað manni þykir vænt um þessi ótrúlegu dýr. Maður getur ekki annað en myndað mögnuð tengsl við þau. Ég get ekki hugsað mér að það komi eitthvað fyrir. Það er ótrúlega mikilvægt fyrir alla að þetta fari vel og að þeim gangi vel þarna úti,“ segir Kristín sem á alveg sérstakt samband við hvalina tvo. „Maður er búinn að vera að vinna með þeim og vera með þeim á hverjum degi. Þetta eru eins og börnin manns,“ segir hún.

Mikill undirbúningur hefur farið fram á griðarsvæði mjaldranna í Klettsvík …
Mikill undirbúningur hefur farið fram á griðarsvæði mjaldranna í Klettsvík en þangað verða þeir færðir í næstu viku. mbl.is/Rósa M.

Í aðlögunarlaug Sea Life Trust þar sem hvalirnir hafa dvalið síðastliðið ár í undirbúningi fyrir flutninginn má sjá ótrúlegt samband dýranna við þjálfara sína en það er augljóst að hvölunum líður vel í kringum starfsfólkið sem allt hefur mikla ástríðu fyrir hvölum. Kristín er annar tveggja íslenskra hvalaþjálfara á staðnum en hún er ein þeirra sem hefur staðið að því að undirbúa Litlu-Grá og Litlu-Hvít fyrir nýju heimkynnin. Kristín segir það hafa verið draum sinn frá barnæsku að fá að vinna með hvölum og verða hvalaþjálfari.

Besta starf í heimi

„Þetta markmið er búið að halda mér svo mikið á réttri braut í gegnum lífið. Ég er búin að halda mér frá allri vitleysu af því að ég vissi alltaf að þetta væri það sem ég vildi gera,“ segir Kristín sem fór í dýraþjálfunarnám í Flórída eftir að hún uppgötvaði að lítið nám tengt áhugasviði hennar væri í boði hérlendis. Í kjölfarið var hún í nokkurra mánaða löngu starfsnámi á Spáni þar sem hún vann með höfrungum og mörgæsum áður en hún sótti um starfið með mjöldrunum.

„Ég var bara rosalega heppin að fá þessa vinnu og er búin að vera hér síðan í september. Þetta er bara það magnaðasta. Þetta er það eina sem ég get hugsað mér að gera í lífinu,“ segir Kristín sem bætir við að hvalaþjálfunarstarfið sé nokkurs konar lífstíll. „Þú ferð ekkert heim og slekkur á vinnunni. Þú ert alltaf að hugsa um þetta. Ég kem heim eftir vinnu og er enn þá að hugsa um hvalina mína og hugsa: Hvað get ég gert betur? Þú ert ekkert að slökkva bara og fara í þitt persónulega líf því þetta yfirtekur lífið þitt og það er það sem ég vil því að þetta er það sem ég vil gera. Það er eiginlega bara fáránlegt að ég sé að fá borgað fyrir þetta því ég myndi gera þetta frítt,“ segir hún kímin og bætir við: „Þetta er bara best í heimi!“

Hún staðfestir að Sea Life Trust stefni að því að ráða fleiri Íslendinga til starfa í náinni framtíð en fyrirtækið vill að hennar sögn að Íslendingar taki hægt og rólega við verkefninu. Enn sem komið er er starfshópurinn þó blandaður fólki hvaðanæva úr heiminum enda ekki mikið af Íslendingum með reynslu af sambærilegu starfi.

Stífar æfingar hafa farið fram á síðustu vikum bæði fyrir …
Stífar æfingar hafa farið fram á síðustu vikum bæði fyrir starfsfólk sem kemur að flutningi mjaldranna í Klettsvík og fyrir mjaldrana sjálfa en þeir hafa verið þjálfaðir til að synda sjálfir í börur sem verða notaðir til flutningsins. Ljósmynd/Sea Life Trust

Mikill undirbúningur að baki

Audrey Padgett framkvæmdastjóri Sea Life Trust hvalaathvarfsins segir Litlu-Hvít og Litlu-Grá hafa aðlagast ótrúlega vel eftir flutninginn frá Kína í júní í fyrra. Segir hún að stífar æfingar hafi farið fram bæði hjá starfsmönnum sem munu koma að flutningi hvalanna og hvölunum sjálfum til að gera flutninginn og breytinguna sem auðveldasta fyrir alla. 

Audrey Padgett framkvæmdastjóri Sea Life Trust í Vestmannaeyjum.
Audrey Padgett framkvæmdastjóri Sea Life Trust í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Sea Life Trust

Segir hún að eitt það mikilvægasta við flutninginn sé að mjaldrarnir fari sjálfviljugir inn í börurnar sem verða notaðar til flutningsins en bætir við að það sé ekki síður mikilvægt að starfsmenn séu vanir og öruggir þegar það verður gert. Ástæðan fyrir því að dagsetning flutningsins hefur ekki enn verið tilkynnt sé að samtökin vilji vera viss um að allir séu vel undirbúnir undir verkefnið.

Hvalirnir, sem Audrey segir að séu í raun ekki systur eins og oft hefur verið haldið fram en hugsanlega frænkur, hafa verið saman allt sitt líf frá því þær voru veiddar við Rússland í kringum árs gamlar. Nú eru frænkurnar 12 ára gamlar og hafa verið í haldi í 11 þeirra. 

Starfsfólk sem kemur að flutningi mjaldranna er vel undirbúið fyrir …
Starfsfólk sem kemur að flutningi mjaldranna er vel undirbúið fyrir verkefnið. Ljósmynd/Sea Life Trust

 „Margir spyrja okkur hvers vegna við sleppum þeim ekki en það er ástæðan. Þær hafa nánast allt sitt líf fengið mat og ummönnun manna,“ segir Audrey og lítur á Litlu-Hvít og Litlu-Grá þar sem þær svamla í lauginni á meðan Kristín kjassast í þeim en hvalirnir njóta greinilega snertingarinnar og sækja í samskiptin. „Við viljum heiðra ábyrgð okkar gagnvart þeim og við gerum það með því að hugsa vel um þær. Við erum með þetta tækifæri til að læra af þeim og hjálpa þeim að aðlagast og verða sjálfstæðari. Og ganga úr skugga um að þær séu öruggar og heilbrigðar. Fólk er núna hluti af þeirra félagshópi og þess vegna höfum við lagt áherslu á það sem hluta af undirbúningnum til að gera þær tilbúnar fyrir flutninginn að byggja upp samband þeirra við starfsfólkið. Þannig að þegar þær eru komnar á þetta nýja svæði þá vita þær að „fólkið þeirra“ er til staðar,“ segir hún.

Opna dyr fyrir fleiri mjaldra

„Líkurnar á að þær geti lifað af sjálfar úti í náttúrunni eru litlar en mjaldrar geta lifað fram á fertugsaldurinn svo við erum opin fyrir öllu. Sea Life Trust er mjög opið fyrir því að læra af þeim og ef þær sýna fram á getu til að lifa af úti í náttúrunni þá munum við ýta á eftir því. En við vitum ekkert og það er ekki planið. Planið er að gefa þeim náttúrulegri heimkynni og gefa þeim besta líf sem hægt er á meðan við hugsum um þær.“ 

Audrey staðfestir að griðasvæðið í Klettsvík sé nægjanlega stórt til að rúma tíu mjaldra og segir það vera eitt af markmiðum verkefnisins að sýna fram aðra möguleika fyrir hvali í haldi.

„Þetta er lokaskrefið í að færa Litlu-Grá og Litlu-Hvít í Klettsvík en þetta er einnig að opna nýjar dyr fyrir fleiri mjaldra að koma hingað í framtíðinni,“ segir Audrey.

Reiða sig á gjafir og stuðning frá fólki

Aðspurð segir hún að faraldur kórónuveirunnar hafi haft mikil áhrif á starfssemi Sea Life Trust.

„Stærsta vandamálið er að við erum góðgerðarstofnun og allt sem við gerum er góðgerðarstarf. Covid hefur haft áhrif á okkur eins og restina af heiminum, sérstaklega á fjölda heimsókna,“ segir Audrey sem kveðst þó vera mjög spennt og bjartsýn vegna opnun landsins fyrir ferðamönnum en stofnunin stefnir að því að bjóða upp á bátsferðir til að fylgjast með mjöldrunum á griðasvæðinu í byrjun júlí í samstarfi við Ribsafari.

„Við erum vongóð um að það verði einhverjir ferðamenn en við vitum ekkert. Gjafir og stuðningur fólks í þessu verkefni er það sem heldur því gangandi svo við erum ótrúlega þakklát fyrir allan þann stuðning sem við fáum.“

Hægt er að fylgjast með mjaldrafrænkunum og vinkonunum á Facebooksíðu hvalaathvarfs Sea Life Trust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert