Þegar farið er frá Egilsstöðum til Borgarfjarðar eystri er fyrsti áningarstaðurinn gjarnan á Bóndastaðahálsinum. Skammt frá Hrollaugsstöðum er að finna kynlegan sjálfsala, þar sem kaupa má sælgæti og gos.
Þessi sjálfsali er á vegum einskis annars en Kidda vídeóflugu, Kristins Kristmundssonar. Sjálfsalinn notar sólarorku og rekur sig að öðru leyti sjálfur, þannig að framlegðin mun vera nokkuð góð.
Fréttaritari mbl.is, Sigurður Aðalsteinsson, átti leið um svæðið í morgun og hitti þar fyrir saumaklúbbinn Sexy. „Þær voru á leið í Borgarfjörð til að sinna áhugamálinu og drekka um leið í sig borgfirska menningu samfara saumaskapnum,“ skrifar hann. Saumaklúbburinn fékk sér hressingu við sjálfsalann.
Sjálfsalinn er frá því rétt eftir aldamót og í viðtali við Morgunblaðið árið 2003 lýsti Kiddi tildrögunum á þessa leið:
„Ég fékk þessa hugmynd um aldamótin og það var farið að hrjá mig svo mikið að prófa þetta að ég var vakinn og sofinn með þessa hugmynd í höfðinu,“ segir Kristinn. „Þá var ekkert annað en að rjúka í málið. Ég hringdi í Kók og spurði hvort ég gæti fengið hjá þeim einn gamlan, lítinn sjálfsala og það var ekkert mál, hann var kominn tíu dögum seinna. Húsið smíðaði ég og það var sett á sinn stað laust fyrir verslunarmannahelgi í fyrra.“.
„Það sem er sniðugt við þetta dæmi er hvernig ég leysi raforkuþörfina,“ heldur Kristinn áfram. „Á Hrolllaugsstaðahálsinum eru nefnilega fleiri kílómetrar í næsta rafmagn og því fór ég út í að nota tækni sem ég hef verið að leika mér með, það er að safna orku sólar og vinds inn á geyma og breyta síðan í 220 volta spennu. Ég er með tvær 70 og 53 w sólarorkurafhlöður og bætti 100 w vindrellu við um daginn. Þetta sýnist mér ætla að duga vel til að láta sjálfsalana ganga á. Mér hafa borist skemmtilegar sögur af húsinu frá byrjun. Sumir héldu víst að þetta væri kamar, kíktu inn og komu alveg dolfallnir út aftur með kókdós í hendi. Ég er með gestabók og einhver spurði í henni hvenær nammisjálfsalinn kæmi. Ég keypti einn fullkominn sælgætissjálfsala í vor og hann vekur mikla lukku.“