Sjampó, pylsusinnep, veiðiföng og olíubrúsar voru á meðal þess sem kom í leitirnar þegar 20 manna hópur sjálfboðaliða tók sig saman ásamt Landhelgisgæslunni og tíndi 2,6 tonn af rusli á Hornströndum. Hópurinn hreinsaði Smiðjuvík, Bjarnarnes, Hrollaugsvík og Hornvík á tveimur dögum.
„Þetta er í 7. skipti sem við förum, en við fórum fyrstu ferðina árið 2014 og hreinsuðum þá Hlöðuvík. Það rekur mjög mikið upp þarna af reka og hefur gert í gegnum tíðina en núna síðustu ár hefur plastið verið stór hluti af úrganginum. Þetta er náttúrulega friðland og það er erfitt að koma þessu í burtu,“ segir Gauti Geirsson, forsprakki hópsins sem gengur undir heitinu Hreinni Hornstrandir.
Gauti segist hafa á tilfinningunni að ruslið minnki með árinu hverju, eftir því sem hópurinn hefur oftar hreinsað víkurnar. Fyrst þegar farið var yfir Hornvíkina, árið 2015, söfnuðust 2 tonn af rusli en 1,1 tonn safnaðist þar í ár.
„Það var mun minni úrgangur í Hornvíkinni núna en fyrir 5 árum. Straumarnir bera meira rusl í sumar víkurnar en aðrar. Magatilfinningin er sú að við séum svolítið að vinna á þessu,“ segir hann.
„Þetta er ekkert frí, það tekur á að rífa þetta upp úr jörðinni og grafa og færa til rekavið,“ segir hann. Algengt sé að úrgangur grafist í sandfjörunum og komi ekki í leitirnar fyrr en eftir nokkurra ára veru í fjörunni.
Þar sem víkurnar eru friðaðar er ekki hlaupið að því að flytja úrganginn af vettvangi, en Landhelgisgæslan gegndi lykilhlutverki í þeim efnum og bauð varðskip til að leggja verkefninu lið.
„Við höfum verið svo heppin að Landhelgisgæslan hefur viljað taka þátt svo mynduglega með því að leggja til varðskip í einn dag til þess að taka ruslið til Ísafjarðar,“ sagði Gauti.
Ferðin markaði tímamót, þar sem með hreinsun Smiðjuvíkur og Hrollaugsvíkur var fyrstu yfirferð yfir allar strandir friðlandsins lokið og hófst þá önnur umferð með yfirferð í Hornvík sem seinast var hreinsuð árið 2015.