Ákvörðun um lífskjarasamninga verður sjálfstæð ákvörðun sem á eftir að ræða. Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Formannafundur ASÍ fór fram í dag. Í ávarpi sínu á fundinum sagðist Drífa ekki telja ráðlegt að lýsa yfir að ASÍ muni segja lífskjarasamningum í haust, en að mikilvægt sé að ASÍ beiti sér fyrir því að knýja fram loforð stjórnvalda og verja það sem hefur þegar áunnist.
„Þetta var fyrst og fremst samráðsfundur. Við vorum að undirbúa okkur fyrir haustið, gera upp veturinn og tókum inn nokkur ný mál á dagskrá. Ræddum lífskjarasamningana og áherslur í haust,“ segir Drífa um fundinn.
Hún segir enga ákvörðun um lífskjarasamningana hafa verið tekna.
„Við vorum bara að hefja það ferli í dag. Hvernig það muni koma út, hvað hefur verið efnt og hvað stendur út af. Síðan kemur að ákvörðun um það hvort að forsendur standist og eins hvort að þeim verði sagt upp, það verður bara sjálfstæð ákvörðun. Við eigum bara aftur að ræða þetta.“
Drífa segist gera ráð fyrir því að formenn komi saman að nýju í haust.