Má búast við jarðskjálfta af stærðinni 7

Enn sem komið er er skjálfta­virkni norðvest­ur af Gjög­ur­tá frek­ar …
Enn sem komið er er skjálfta­virkni norðvest­ur af Gjög­ur­tá frek­ar staðbund­in, en þó er greini­legt að að minnsta kosti tvær sprung­ur eru virk­ar. Náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar segir að helst megi búast við enn stærri sjálfta, allt að sjö að stærð, ef hrinan nær að kalla fram jarðskjálfta á Húsavíkur-Flateyjar-misgenginu. Ljósmynd/Sigurgeir Haraldsson

Viðbúið er að jarðskjálfti allt að sjö að stærð geti orðið í yfirstandandi jarðskjálftahrinu á Norðurlandi. Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, hvetur íbúa á svæðinu til að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta. 

Tæplega 3.800 jarðskjálftar hafa mælst á Tjörnesbrotabeltinu frá því hrinan hófst í hádeginu á föstudag. Síðustu tvo sólarhringa hafa 120 skjálftar mælst þrír eða stærri. Stærsti skjálftinn varð í gærkvöld, 5,8 að stærð, en síðdegis á laugardag mældust tveir skjálftar yfir fimm, sá fyrri 5,4 og sá seinni 5,6. 

„Hrinan er yfirstandandi eins og er og ekki er hægt að útiloka það komi stærri skjálfti í hrinunni,“ segir Einar í samtali við mbl.is. Að mati Veðurstofunnar má búast við skjálftum allt að sjö að stærð í yfirstandandi hrinu, en stærri verða jarðskjálftar varla á svæðinu. Ljóst er að ef skjálfti af slíkri stærðargráðu verður má búast við gríðarlegu tjóni. 

„Það er gott að fara yfir viðbrögð við jarðskjálftum hjá almannavörnum, það er að halda kyrru fyrir og fara undir borð eða rúm og líka huga vel að innanstokksmunum, núna er góður tími til að hafa þessa hluti í lagi,“ segir Einar.  

Síðustu tvo sólarhringa hafa 120 jarðskjálftar stærri en þrír mælst …
Síðustu tvo sólarhringa hafa 120 jarðskjálftar stærri en þrír mælst á Tjörnesbrotabeltinu. Kort/Veðurstofan

Virknin færist fram og til baka

Skjálfta­virknin norðvest­ur af Gjög­ur­tá er frek­ar staðbund­in enn sem komið er, en þó er greini­legt að að minnsta kosti tvær sprung­ur eru virk­ar. Fyrst um sinn var að ræða sniðgengisskjálfta, þar sem brotahreyfing skjálftans er til hliðar en ekki upp og niður, við mynni Eyjafjarðar vestast á Húsa­vík­ur-Flat­eyj­ar-mis­geng­inu. Í gær færðist virknin yfir á Eyjarfjarðarálinn fjær landi. Af þeim sökum fannst styrkur hans ekki jafn vel í landi að sögn Einars, þótt hann hafi mælst stærstur, eða 5,8. „Það er tilfinning fólks, en það var ef til vill betur undir hann búið,“ bætir Einar við. 

Skjálftavirknin í dag er aftur að færast þar sem hún byrjaði. Stærsti skjálfti frá miðnætti varð rétt fyrir klukkan fjögur í nótt, um 30 kílómetra vestur af Grímsey og mældist hann 3,4 að stærð. Varðandi stærri skjálfta segir Einar það helst möguleika ef hrinan nær að kalla fram skjálfta á Húsavíkur-Flateyjar-misgenginu sem gæti orðið stærri.  

Einnig er varað við afleiddum hættum af völdum jarðskjálfta, svo sem grjóthruni, og mun náttúruvárvakt Veðurstofunnar fara betur yfir þær hættur á daglegum samráðsfundi sínum klukkan 14 í dag að sögn Einars. Aukinn mannskapur var kallaður út um helgina sökum skjálftahrinunnar en fjöldi sérfræðinga á vakt er hefðbundinn þennan daginn.

Hér má finna allar helstu upplýsingar um viðbrögð við jarðskjálfta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert