Starfsáætlun tekin úr sambandi

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsáætlun Alþingis hefur verið tekin úr sambandi. Frá þessu greindi Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, við upphaf þingfundar í morgun. Ný áætlun hefur ekki lögð fram en ætla má að ekki takist að ljúka þingi líkt og stefnt var að nú á fimmtudag.

Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í dag var það mat þingflokksformanna flestra flokka í gær að þinglokasamningar væru í uppnámi og að ólíklegt væri að tækist að ljúka þingi á tilsettum tíma, þar sem umræður um samgöngumál hafi farið langt fram úr áætlun. Þingflokksformenn stjórnarflokkanna hafa kennt málþófi þingmanna Miðflokksins um tafir og sagt þingmennina taka þingið í gíslingu.

Þrátt fyrir breytta starfsáætlun verður eldhúsdagur með óbreyttum hætti á morgun, þriðjudag. Þingfundur stendur nú yfir en fyrstu mál á dagskrá eru, sem fyrr, samgönguáætlanir til fimm og fimmtán ára, frumvarp um opinbert hlutafélag um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert