Verkalýðsleiðtogar mæta til fundar

Frá upphafi fundarins í morgun.
Frá upphafi fundarins í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðstjórn ASÍ boðaði formenn allra 48 aðildarfélaga Alþýðusambandsins til samráðsfundar í dag í ljósi erfiðrar stöðu á vinnumarkaði og þeirra stóru verkefna sem bíða haustsins. Meðal annars verður rætt um hvort forsendur lífskjarasamninga séu brostnar.

Búast má við hitafundi, en Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafa meðal annars sagt að forsendur samninganna séu brostnar. Það sé meðal annars þar sem lög um afnám svokallaðra Íslandslána, eða 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána, hafi ekki verið sett.

Þá sagði Vilhjálmur við Morgunblaðið í morgun að það liggi fyrir að það frumvarp sem fjármálaráðherra hyggist leggja fram um hlutdeildarlán sé með svo miklum undanþágum að nánast allir geti haldið áfram að taka slík lán. „Að mínu mati er þetta umtalsverður forsendubrestur og svik miðað við það sem um var talað,“ sagði Vilhjálmur. 

Fundurinn hófst klukkan 10 og áætlað er að honum ljúki um klukkan hálffjögur síðdegis. 

Á dagskrá fundarins er fyrst yfirlýsing stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninginn. Þá er á dagskrá málefnastarf um ferðaþjónustu á nýjum grunni, ótrygg ráðningasambönd og varnir fyrir heimilin. Að lokum verða ræddar áherslur við mat á forsendum kjarasamninga í september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert