„Ég er bara mjög ánægð. Það var mjög góð mæting og virk umræða og skoðanaskipti, eins og alltaf,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, eftir kynningarfund á miðlunartillögu ríkissáttasemjara. „Hjúkrunarfræðingar hafa miklar og góðar skoðanir á sínum kjaramálum.“
Verkfalli hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu, sem skella átti á í morgun, var afstýrt í gær þegar ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu og vísaði launalið deilunnar um leið til gerðardóms og fengu félagsmenn Fíh kynningu á miðlunartillögunni á fundi síðdegis.
„Það var mikið um spurningar, mikil umræða og beðið um skýringar. Í tæpa tvo tíma vorum við í virku samtali. Mér fannst þetta mjög gott,“ segir Guðbjörg.
Vegna samkomutakmarkana verður annar kynningarfundur haldinn á morgun, auk þess sem honum verður streymt á lokuðum vef hjúkrunarfræðinga fyrir þá sem ekki sjá sér fært að mæta.
Atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu ríkissáttasemjara hefst svo á miðvikudag og stendur fram á laugardag.