Dregur örlítið úr skjálftavirkninni

Hér má sjá staðsetningu jarðskjálftanna á Tjörnesbrotabeltinu frá því á …
Hér má sjá staðsetningu jarðskjálftanna á Tjörnesbrotabeltinu frá því á föstudag. Kort/Morgunblaðið

Örlítið hefur dregið úr styrk jarðskjálftahrinunnar við mynni Eyjafjarðar sem hófst um hádegi á föstudag. 300 skjálftar mældust í nótt, allir undir 3 að stærð.  

Síðustu tvo sólarhringa hafa samtals 1.550 skjálftar orðið á svæðinu en frá því hrinan hófst hafa yfir 4.000 skjálftar orðið á svæðinu samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Sá stærsti varð á sunnudagskvöld, 5,8 að stærð, rúma 30 kílómetra norðnorðaustur af Siglufirði. 

Grænu stjörnurnar tákna skjálfta 3 eða stærri sem mælst hafa …
Grænu stjörnurnar tákna skjálfta 3 eða stærri sem mælst hafa síðustu tvo sólarhringa. Alls eru þeir 61 en enginn skjálftii, 3 eða stærri, hefur orðið frá því á miðnætti og því hefur örlítið dregið úr virkninni á Tjörnesbrotabeltinu frá því að hrinan hófst á föstudag. Kort/Veðurstofa Íslands

Áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða og er óvissustig almannavarna í gildi á svæðinu. Því hvetur Veðurstofan, líkt og almannavarnir, fólk sem býr á þekktum jarðskjálftasvæðum til þess að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta.

Fréttin hefur verið uppfærð miðað við yfirfarin gögn frá Veðurstofunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert