Örlítið hefur dregið úr styrk jarðskjálftahrinunnar við mynni Eyjafjarðar sem hófst um hádegi á föstudag. 300 skjálftar mældust í nótt, allir undir 3 að stærð.
Síðustu tvo sólarhringa hafa samtals 1.550 skjálftar orðið á svæðinu en frá því hrinan hófst hafa yfir 4.000 skjálftar orðið á svæðinu samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Sá stærsti varð á sunnudagskvöld, 5,8 að stærð, rúma 30 kílómetra norðnorðaustur af Siglufirði.
Áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða og er óvissustig almannavarna í gildi á svæðinu. Því hvetur Veðurstofan, líkt og almannavarnir, fólk sem býr á þekktum jarðskjálftasvæðum til þess að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta.
Fréttin hefur verið uppfærð miðað við yfirfarin gögn frá Veðurstofunni.