Ekki lengur varað við ónauðsynlegum ferðum

Áfram er Íslendingum ráðið frá ónauðsynlegum ferðum utan Evrópu.
Áfram er Íslendingum ráðið frá ónauðsynlegum ferðum utan Evrópu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú þegar kórónuveirufaraldurinn er í rénun í Evrópu og landamæri flestra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins hafa opnast Íslendingum hafa ferðaráðleggingar ríkisstjórnarinnar verið endurskoðaðar og er nú ekki lengur varað við ónauðsynlegum ferðum til þeirra ríkja Evrópu sem Íslendingar geta ferðast til án sérstakra skilyrða.

Áfram er Íslendingum ráðið frá ónauðsynlegum ferðum utan Evrópu vegna ferðatakmarkana og sóttvarnarákvæða sem þar kunna að vera í gildi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Skilgreining sóttvarnalæknis á áhættusvæðum vegna smithættu er áfram í gildi og er öllum þeim sem hafa dvalið á áhættusvæðum skylt að sæta sóttvarnaaðgerðum á landamærum.

Engir heimflutningar eins og þegar faraldur skall á

Þá ber að hafa í huga, að því er segir í tilkynningu Stjórnarráðsins, að aðstæður geti breyst hratt og hafa flest samstarfsríki Íslands varað við því að ekki verði staðið að heimflutningum líkt og þegar faraldurinn skall á snemma árs 2020. 

Heimflutningar Íslendinga byggðu á samstarfi við þessi ríki og því er ekki gert ráð fyrir að utanríkisþjónustan geti aðstoðað Íslendinga með sama hætti og þá ef aðstæður breytast. Ferðalangar eru því hvattir til að kynna sér vel reglur og aðgerðir þeirra ríkja sem þau hyggjast heimsækja sem og skilmála þjónustuaðila og tryggingafélaga áður en lagt er af stað í ferðalag til útlanda.

Ferðaráð utanríkisráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert