Inga Sæland bað fátækasta fólk landsins afsökunar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Afsökunar á því að á Flokk fólksins hafi ekki verið hlustað á þinginu og afsökunar á því að 18 mál flokksins væru föst í nefndum Alþingis.
Sagði Inga að kórónuveirufaraldurinn og 17% fall krónunnar vegna hans hafa gert fátækasta fólk samfélagsins enn fátækari. Hún furðaði sig á því hve lítið hafi verið gert fyrir þennan hóp og minnti ráðherra og þingmenn ríkisstjórnarinnar á að til væri fleira í landinu en fyrirtæki. „Svo furða ráðherrar sig á því að Alþingi njóti ekki trausts,“ sagði Inga.
Daprast af öllu döpru sagði Inga að við áttuðum okkur ekki á því að stór hópur úti í samfélaginu þyrfti á aðstoð að halda.
Eins og áður segir bað Inga þennan hóp afsökunar í ræðu sinni, en sagði það þó ekki þýða að flokkur fólksins hefði ekki náð ákveðnum árangri sem hún væri stolt af. Flokkurinn hefði ekki eytt fjármagni í að auglýsa hvað hann hefði áorkað, en að á því yrði nú bragarbót.
„Allir munu fá að vita hvað við höfum áorkað. Það eiga ekki allir að verða hissa á að fá eitthvað meira inn á bókina sína, leiðréttingu frá Tryggingastofnun,“ sagði Inga og það sé vegna þess að Flokkur fólksins hafi komið því til leiðar, einu máli sem þingheimur hafi tekið undir, enda sanngirnis- og réttlætismál.
„Ég vil að þið vitið það, kæru öryrkjar og þeir sem hafa notið styrkja vegna fátæktar til lyfja- og tækjakaupa, það mál fór í gegn fyrir tilstilli Flokks fólksins.“