Heilbrigðisstarfsfólki var flogið með þyrlu á Seyðisfjörð nú fyrir skömmu til að aðstoða við skimun fyrir kórónuveirunni meðal farþega Norrænu.
„Nú er að koma hingað þyrla með heilbrigðisstarfsfólki til að annast þessa sýnatöku. Það var einhver viðbót sem þurfti að koma að sunnan. Hún er bara að lenda,“ segir Árni Elísson, tollvörður á Seyðisfirði.
Árni segir að skimun sé ný hafin og beðið sé eftir því að farþegar sem ekki þurfa að fara í sýnatöku fari frá borði.
„Þetta hefur ekki gengið neitt ennþá. Skipið kom upp að fyrir örfáum mínútum og sýnatökufólkið er nýfarið um borð. Við bíðum bara eftir því að fyrsta fólkið komi í land.“
Hátt í 500 manns komu með Norrænu til Seyðisfjarðar í dag. Þar af eru um 120 Færeyingar sem eru undanskildir skimun við landamæri. Það eru því um 350 farþegar sem eru skimaðir í dag, en síðasta þriðjudag var skimað fyrir veirunni hjá talsvert færri farþegum, alls 80.
Það er því ljóst að framundan sé stór dagur segir Árni.
„Við erum afskaplega heppin með veðrið í dag. Það er sól og hiti þannig að það verða allir rólegri fyrir vikið þegar veðrið er svona gott. Þeir hafa lagt áherslu á það hjá Smyril line að fá fólk um borð til að fylla út eyðublaðið fyrir fram. Það ræðst svolítið af því hvort að það hafi gengið eftir hve langan tíma þetta mun taka.“