Aron Þórður Albertsson
Forsvarsmenn Icelandair hafa fundið fyrir áhuga erlendra fjárfesta í aðdraganda hlutafjárútboðs flugfélagsins. Hefur félagið þó ekki haft frumkvæði að slíku samtali.
Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í Morgunblaðinu í dag. Að hans sögn miðar vinna félagsins við að sækja fé í framangreindu útboði til innlendra fjárfesta. „Við höfum verið með einbeitinguna hér innanlands og höfum ekki haft frumkvæði að því að tala við fjárfesta erlendis frá. Þátttaka erlendra aðila kemur þó alveg til greina,“ segir Bogi og bætir við að félagið eigi í reglulegum samskiptum við stærstu hluthafa flugfélagsins. „Við höfum verið að ræða við þá sem eru stærstir í okkar hluthafahópi. Við höfum haft frumkvæði að því og erum í reglulegu sambandi við þá,“ segir Bogi.
Ljóst er að áður en af hlutafjárútboði verður þarf Icelandair að finna lausn á kjaradeilu flugfreyja. Þá þarf að ljúka samningum við fjölda hagaðila. Að sögn Boga miðar viðræðum við lánardrottna og aðra hagaðila ágætlega. „Þetta eru flóknar viðræður og margir mótaðilar. Þetta þokast áfram,“ segir Bogi sem kveðst aðspurður ekki geta tjáð sig um hvort flugfélagið hafi fengið vilyrði fyrir umbreytingu skulda frá einhverjum viðkomandi lánardrottna.