Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum í kvöld.
Hún sagði hana myndaða utan um ómarkvissa aukningu ríkisútgjalda og vinna eftir allt öðru en skýrri framtíðarsýn. Lítið hafi verið um efndir en meira um orð í aðgerðum vegna kórónuveirufaraldurinn, eins og sæist í því að engin brúarlán hefðu enn verið veitt, sem voru ein helsta efnahagsaðgerð sem kynnt var.
„Það er þó ekki svo að ríkisstjórnin hafi setið auðum höndum algerlega og við í Viðreisn höfum sem fyrr lagt góðum málum lið og munum gera áfram. En það er þó svo að dýrmætur tími hefur farið hjá ríkisstjórninni líka í vörn fyrir sérhagsmunina. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír verjast fimlega þeirri sjálfsögðu kröfu að veiðiréttur sé ekki afhentur varanlega heldur með tímabundnum samningum. Og það undirstrikað í stjórnarskrá að sjávarauðlindin er eign íslenskrar þjóðar,“ sagði Hanna.
Hanna sagði að kórónuveiran hafi reynst skálkaskjól fyrir ríkisstjórnina til þess að „keyra illa undirbúin mál í gegnum þingið á methraða.“ Hún sagði að ýmis frelsismál sem kynnt hafi verið til sögunnar með „vel pródúseruðum kynningarfundum eða herferðum á samfélagsmiðlum“ hafi verið glansandi umbúðir sem reyndust svo innihaldslausar.
Hún sagði tugi mála bíða afgreiðslu örfáum dögum fyrir þinglok, og að of mörg ættu það sammerkt að ganga á réttindi fólks. „Vonandi eru þó hert og ómannúðleg lög dómsmálaráðherra um útlendinga komin í saltkistuna eftir þunga gagnrýni stjórnarandstöðunnar rétt eins og upplýsingalagafrumvarp forsætisráðherra sem óbreytt hefði gert fjölmiðlum nánast ókleift að nálgast mikilvægar upplýsingar á grundvelli þessara laga. En bara það að þessar tilraunir hafi verið gerðar af hálfu ríkisstjórnarinnar er áhyggjuefni og undirstrikar mikilvægi þess að stjórnarandstaðan sé alltaf á varðbergi,“ sagði Hanna.