Þurfa að viðhafa aðra aðferð í sumar

Sumaráætlun Norrænu hefst á fimmtudag.
Sumaráætlun Norrænu hefst á fimmtudag. mbl.is/Sigurður Bogi

Skimun fyrir kórónuveirunni meðal farþega sem komu með Norrænu á Seyðisfjörð er lokið. Sumaráætlun Norrænu hefst á fimmtudag. 

„Það eru allir komnir í land núna og við erum bara rétt að klára að afgreiða síðustu farþega í tollafgreiðslunni,“ segir Árni Elísson, tollvörður á Seyðisfirði. 

„Þetta gekk seint í upphafi en síðan þegar þau fóru að fara í land hefur þetta gengið bara ljómandi.“

Hátt í 500 manns komu með Nor­rænu til Seyðis­fjarðar í dag. Þar af voru um 120 Fær­ey­ing­ar sem eru und­an­skild­ir skimun við landa­mæri. Það voru því um 350 farþegar skimaðir í dag, en síðasta þriðju­dag var skimað fyr­ir veirunni hjá tals­vert færri farþegum, alls 80. 

„Þetta tók lengri tíma. Ég myndi halda að þetta hafi gengið hraðar á farþega en í síðustu viku, en þetta er náttúrulega miklu meira af fólki,“ segir Árni.  

Árni segist gera ráð fyrir því að heilbrigðisstarfsmenn sem komu með þyrluflugi til Seyðisfjarðar til að aðstoða við skimunina fari aftur til Reykjavíkur í dag. 

Sumaráætlun Norrænu hefst á fimmtudag. 

„Þetta var síðasta vetrarferðin og nú hefst sumaráætlun. Þá kemur skipið á fimmtudögum og er ætlað að stoppa bara í 2 tíma. Þá þarf að viðhafa einhverja aðra aðferð en þessa,“ segir Árni. 

Hann segist gera ráð fyrir því að farþegum haldi áfram að fjölga. 

„Það verður eitthvað meira en þetta á fimmtudaginn, þetta er bara að aukast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert