Umbúðirnar flottar en innihaldið lítið

Kristinn Magnússon

Í ræðu sinni í Eldhúsdagsumræðum í kvöld gagnrýndi Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, ríkisstjórnina harðlega, m.a. fyrir viðbrögð við kórónuveirunni og vinnubrögð meirihlutans á Alþingi.

„Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur boðaði ný vinnubrögð og öflugra Alþingi en eins og margt af því sem frá ríkisstjórninni hefur komið eru umbúðirnar flottar, blaðamannafundirnir glæsilegir, frasarnir úr handbókum almannatengla grípandi en innihaldið mjög lítið,“ sagði Gunnar Bragi.

Hann segir stjórnarflokkana hamast við að klára þingmál sem hafa fengið takmarkaða umfjöllun í nefndum Alþingis, og að ráðherrar reyni að renna stórum og umdeildum málum í gegnum þingið.

Megum ekki fórna fullveldinu

„Íslendingar eru lánsöm þjóð,“ segir Gunnar Bragi, en ekki megi fórna fullveldi þjóðarinnar. „Meðal þess sem ógnar fullveldinu eru litlar en margar ákvarðanir þar sem völd eða áhrif eru færð erlendum stofnunum eða ríkjasamböndum. Þetta þarf að varast og skoða reglulega,“ segir Gunnar Bragi.

Hann segir þá ríkisstjórnina, og þá sem sat á undan henni, nota neikvæðan hvata er kemur að umhverfismálum í stað þess að nota jákvæða hvata, á borð við að kenna fólki að nota plastpokana aftur og aftur og leggja áherslu á hringrásarhagkerfið, eða verðlauna fólk og fyrirtæki í gegnum skattakerfið.

Einnig segir Gunnar Bragi kvartanir yfir vinnubrögðum, einelti og slæmum anda koma úr hörðustu átt.

„Forðumst rétttrúnaðinn“

„Stjórnmál dagsins snúast of lítið um stjórnmál en meira um umbúðir og læk á fésbókinni eða skjálfta í hnjám yfir því sem virkir í athugasemdum hafa fram að færa,“ segir Gunnar Bragi.

„Það að hafa skoðun, upplýsa um hana og berjast fyrir henni er ekki leyfilegt alls staðar,“ segir Gunnar Bragi. „Engin ein skoðun er rétt og það er beinlínis hættulegt ef við bönnum eða hrekjum undir yfirborðið skoðanir sem okkur ekki hugnast. Forðumst rétttrúnaðinn og tökum frekar umræðuna við þá sem bera fram skoðanir eða stefnumál sem okkur líkar ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert