Þingmönnum Samfylkingarinnar finnst algjörlega ótækt að að fyrirtækjum sem hafa nýtt sér skattaskjól séu réttir fjármunir úr ríkissjóði.
„Jafnaðarmenn hafa ætíð barist gegn skattsvikum. Við getum ekki sætt okkur við að auðmenn nýti sér skattakjól og láti aðra bera þeirra hlut í velferðarkerfinu. Það þarf að vinna gegn því samfélagsmeini. En ríkisstjórnin yppir öxlum. Hún veit af spillingunni en gerir ekkert,“ sagði Oddný G. Harðardóttir í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.
Þá sagði hún að skylirði ætti að vera fyrir stærri fyrirtæki að skila áætlun í loftslagsmálum áður en greiðsla úr ríkissjóði gengi til þeirra.
„Margar aðrar þjóðir hafa sett slík skilyrði þegar þau veita fyrirtækjum aðstoð. En ríkisstjórn Íslands segir að nú sé ekki rétti tíminn. Hvenær ætli rétti tíminn komi til að vinna gegn loftlagsvánni sem ógnar öllu lífi á jörðinni?“ spurði Oddný og sagði að blaðamannafundur ríkisstjórnarinnar um uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrr í dag hafi verið vonbrigði.
Að lokum gerði Oddný ójöfnuð í samfélaginu að umræðu efni og sagði Samfylkinguna vilja jafna leikinn og sjá til þess að arður af auðlindum renni til þjóðarinnar en ekki nánast allur í vasa fárra fjölskyldna.
„Við höfum verið upplýst um hverju fiskveiðistjórnunarkerfið okkar hefur skilað útgerðarfyrirtækinu Samherja og hvernig eigendur þess fyrirtækis hafa nýtt þá góðu stöðu til að græða meira, jafnvel með vafasömum og sem virðist, saknæmum hætti á kostnað fátækrar þjóðar í Namibíu. Við búum við þá hættu að með samþjöppun aflaheimilda verði ítök fárra svo mikil í íslensku þjóðlífi að þeir verði í aðstöðu til að stýra gjörðum ráðherra ríkisstjórna. Þessari þróun þarf að snúa við og vinna gegn samþjöppun og verja sjávarbyggðir landsins. Spillingarhættan vofir yfir okkur líkt og Namibíu.“