Skjálftavirkni við mynni Eyjafjarðar er aftur að aukast eftir heldur rólega nótt. „Það leit út fyrir að það væri að hægja verulega á þessu þangað til klukkan sjö í morgun, þá virðist hafa komið önnur hviða,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Um klukkan hálfníu mældist jarðskjálfti 2,9 að stærð, klukkan 10 varð skjálfti 3,3 að stærð og var það fyrsti skjálftinn frá miðnætti sem mældist stærri en 3. Stundarfjórðungi síðar mældist skjálfti af stærðinni 3,4. Frá miðnætti hafa um 540 skjálftar mælst.
„Þetta segir okkur að jarðskjálftahrinan er enn í gangi. Flestir eru viðbúnir stærri skjálfta en við vonum að það fari að hægja á þessu hvað úr hverju,“ segir Einar.
Náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands og almannavarnir koma saman á fundi eftir hádegi þar sem farið verður yfir skjálftavirknina á Norðurlandi hingað til og hvaða sviðsmyndir viðbragðsaðilar sjá fyrir sér í framhaldinu. Óvissustig almannavarna vegna skjálftavirkni á Norðurlandi er enn í gildi.