Karlmaður á sextugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir að hafa orðið sambýliskonu sinni að bana í Sandgerði í lok marsmánaðar. Er hann ákærður fyrir manndráp. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við mbl.is, en Fréttablaðið greindi fyrst frá ákærunni.
Kolbrún staðfestir að ákæran hafi verið send til Héraðsdóms Reykjaness fyrr í dag, en maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því 2. apríl, eða frá því krufning á líki eiginkonu hans leiddi í ljós að andlátið hefði líklega borið að með saknæmum hætti. Eiginkona mannsins lést á heimili þeirra hjóna í Sandgerði 28. mars.