Fundað inn í nóttina

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Hari

Steingrímur J Sigfússon, forseti Alþingis, segist gera ráð fyrir því að fundað verði inn í nóttina á Alþingi. Miðflokksmenn eru nú einir á mælendaskrá í umræðunni um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. 

„Við reiknuðum strax frá byrjun með löngum degi og ekki dregur úr þörfinni fyrir það eftir því sem menn þurfa meira að tala um þetta opinbera hlutafélag. Það verður mjög langur dagur í dag og það verður alveg örugglega fundað inn í kvöldið og inn í nóttina,“ segir Steingrímur í samtali við mbl.is.

Ann­arri umræðu um sam­göngu­áætl­an­ir til næstu fimm og fimmtán ára lauk í gær er þing­menn Miðflokks­ins fluttu sín­ar síðustu ræður. Umræða hafði þá staðið í 46 klukku­stund­ir síðustu sex þingdaga og hélt Miðflokk­ur­inn umræðunum uppi og gagnrýndi fyrirhugaða borgarlínu ítrekað. 

„Æskilega höfðum við verið að klára dagskrá þessa fundar upp á framhaldið en það er bara ekki ljóst hver útkoman verður en það er eitthvað verið að tala saman. Því miður situr umræðan föst í bili í sama farinu og hún var í samgönguáætluninni. Það hefur bara færst yfir í þetta frumvarp um opinbera hlutafélagið eins og hver maður getur bara séð fyrir sig,“ segir Steingrímur. 

Spurður hvort að hann telji að þinginu takist að ljúka annarri umræðu um opinbera hlutafélagið segir Steingrímur ómögulegt að segja til um það, en 19 önnur mál voru á dagskrá þingsins í morgun. 

„Það verður bara að koma í ljós. Ég get lítið sagt um það á þessu stigi nema það að ýmsir eru að vinna í því á bakvið tjöldin.“ 

Þá segir Steingrímur það þýðingarlaust að segja til um það á þessu stigi hvenær vonir standa til að þinglok verði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert