Höfðar mál til að ógilda úrskurðinn

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hyggst höfða mál á hendur Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, til þess að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála, en hún komst að þeirri niðurstöðu í maí síðastliðnum að Lilja hefði brotið jafnréttislög með því að ganga framhjá Hafdísi Helgu við ráðningu á ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Í fréttum RÚV kom fram að í lögum um kærunefnd jafnréttismála segi að úrskurðir hennar séu bindandi gagnvart málsaðilum, en þeim sé heimilt að bera úrskurði hennar undir dómstóla. Það þýðir hins vegar að ráðherra þarf að höfða mál gegn Hafdísi sjálfri til þess að hægt sé að ógilda úrskurðinn. 

Áslaug Árnadóttir, lögmaður Hafdísar Helgu, sagði að ákvörðunin kæmi sér á óvart, en ekki væri vitað til þess að mál hafi verið höfðað persónulega á hendur aðila áður til að ógilda úrskurð kærunefndarinnar. Ráðuneytið sagði hins vegar að lögfræðiálit hefðu bent á lagalega annmarka við úrskurðinn og að brýnt væri að lagalegri óvissu við málið yrði eytt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert