Næsta tilslökun 13. júlí

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnalæknir mun leggja það til við heilbrigðisráðherra að slakað verði á fjöldatakmörkunum vegna kórónuveirunnar 13. júlí. Gert er ráð fyrir að 2.000 manns megi koma saman frá þeim tíma. Þetta kom fram á blaðamannafundi almannavarna í dag.

Fimm hundruð manns hafa mátt koma saman frá því 15. júní en á fundinum sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að hann teldi ráðlegt að láta fjórar vikur líða frá þeim tíma þar til næsta tilslökun yrði gerð.

Áður hafa liðið þrjár vikur á milli tilslakana, en í ljósi þess að landamæri Íslands hefðu verið opnuð fyrir ferðamönnum væri ráð að fara hægar í sakirnar. Þórólfur mun því leggja þetta til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra en það er hennar að gefa út nýjar reglur.

Á fundinum sagði Þórólfur einnig að til skoðunar væri að rýmka reglur um opnunartíma skemmtistaða, en þeim ber nú að loka klukkan 23. Hann gaf þó ekkert upp um hvenær mætti vænta að sú breyting taki gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert