Skjálfti af stærðinni 4,2 rétt fyrir hádegi

Jarðskjálfti af stærðinni 4,2 varð um 8,5 kílómetra suðsuðaustur af …
Jarðskjálfti af stærðinni 4,2 varð um 8,5 kílómetra suðsuðaustur af Gjögurtá rétt fyrir hádegi. Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálfti af stærðinni 4,2 varð um 29 kílómetra norðnorðaustur af Siglufirði rétt fyrir hádegi. Þetta er stærsti skjálftinn sem mælst hefur við mynni Eyjarfjarðar síðustu tvo sólarhringa. 

Skjálftinn varð klukkan 11:51 og þremur mínútum síðar varð annar skjálfti, 3 að stærð, á nákvæmlega sömu slóðum. Klukkan 12:02 varð svo enn annar skjálfti og mældist hann 3,5 að stærð.  

Yfir fimm þúsund skjálftar frá því á föstudag

Hrinan sem hófst á föstudag er því enn í fullum gangi og hafa um 5.000 jarðskjálftar mælst. Heldur dró úr virkninni um tíma í nótt, um 400 skjálftar hafa mælst þar síðan miðnætti, flestir undir 3,0 að stærð. 

Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni, sá stærsti á sunnudagskvöldið kl. 19:07 af stærð 5,8 rúma 30 km NNA af Siglufirði. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði.

Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert