Eftir heldur rólega nótt hafa þrír jarðskjálftar, þrír eða stærri, mælst norður af Siglufirði. Klukkan 5:15 í morgun varð skjálfti af stærðinni 3 og hafði jafn stór skjálfti þá ekki mælst í um sólarhring.
Tveir skjálftar, báðir 3,2 að stærð, urðu með tveggja mínútna millibili rétt fyrir klukkan sjö í morgun.
Frá því að jarðskjálftahrinan hófst um hádegi á föstudag hafa á fimmta þúsund skjálftar mælst. Þrír skjálftar stærri en fimm urðu um helgina, sá stærsti 5,8. Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða. Óvissustig almannavarna vegna skjálftavirkninnar á Norðurlandi er enn í gildi.