Hefur fengið líflátshótanir og segir Eflingu ljúga

„Ég hef ekkert með þetta hús að gera. Efling heldur áfram að ljúga upp á mig endalaust og það er óþolandi,“ segir Halla Rut Bjarnadóttir, skráður forráðamaður starfsmannaleigunnar Seiglu. Samskiptafulltrúi Eflingar sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að starfsfólk Seiglu hefði búið í húsinu sem brann í miðbænum í dag. Það segir Halla af og frá og Eflingu með þráhyggju fyrir sínum fyrirtækjarekstri. 

Halla rak áður, ásamt fleirum, starfsmannaleiguna Menn í vinnu sem Efling á í málaferlum við. Áður hafa ummæli sérfræðings Alþýðusambands Íslands um starfsmannaleiguna verið dæmd sem meiðyrði. 

„Það er búið að dæma að þetta var allt lygi. Samt halda þau áfram. Þau fóru meira að segja í rúmenska sjónvarpið og sögðu okkur ræna fólkið. Ég fékk þvílíkar líflátshótanir eftir það og ég veit ekki hvað og hvað. Ég er búin að þurfa að flytja tvisvar út af heimili mínu vegna þessa,“ segir Halla. 

„Búið að rústa lífi margra“

„Ég er búin að missa aleiguna. Það er búið að rústa lífi margra vegna þess hvernig þau eru búin að haga sér. Þau geta ekki kennt mér líka um það ef það brennur eitthvert hús niðri í bæ.“

Samskiptafulltrúi Eflingar sagði að fyrirtækið hefði einnig áhyggjur af aðbúnaði starfsfólks Seiglu sem býr í húsnæði á Kársnesi. Halla segir það íbúðarhús. 

„Þetta er bara fínt hús með öllu sem til þarf. Það er garðskáli þarna og fjórar útgönguleiðir ef kviknar í og það er á fyrstu hæð.“

Halla segir að Seigla sé í raun ekki arftaki Manna í vinnu, hið nýja fyrirtæki sé mun smærra í sniðunum. Menn í vinnu fóru í þrot í kjölfar þess að Efling hóf málaferli gegn fyrirtækinu og segir Halla að 80 manns hafi misst vinnuna vegna þess. 

Húsið sjálft, sem stendur á horni Bræðra­borg­ar­stígs og Vest­ur­götu, er ekki skráð á Seiglu og segir Halla að Seigla tengist því ekki með neinum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert