Samningar náðst milli Icelandair og flugfreyja

Samningar voru undirritaðir á fjórða tímanum í nótt.
Samningar voru undirritaðir á fjórða tímanum í nótt. Ljósmynd/Flugfreyjufélagið

Samningar hafa tekist milli Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair um nýjan kjarasamning. Hann var undirritaður á fjórða tímanum í nótt eftir sleitulausar viðræður frá því á hádegi í gær. Samningurinn gildir til 30. september 2025.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að samningurinn sé í samræmi við það sem lagt var upp með um aukið vinnuframlag flugfreyja og sveigjanleika fyrir félagið. Þó séu ráðstöfunartekjur flugfreyja og -þjóna varðar.

„Það er virkilega ánægjulegt að hafa gengið frá langtímasamningi við flugfreyjur og flugþjóna en það er mikilvægur þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins og liður í að auka samkeppnishæfni þess til lengri tíma,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, í tilkynningunni. Hlutafjárútboð Icelandair hefst á mánudag en ljóst var að ná þyrfti samningum við flugfreyjur fyrir þann tíma.

Í yfirlýsingu frá Flugfreyjufélaginu segir að með samningnum komi félagið til móts við kröfur Icelandair í því gjörbreytta landslagi sem blasir við fyrirtækinu og geri því kleift að auka samkepppnishæfni og sveigjanleika félagsins.

Samningurinn verður kynntur flugfreyjum á föstudag og því næst borinn undir félagsmenn í rafrænni atkvæðagreiðslu.

Fréttin hefur verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert