Segir starfsfólk arftaka Manna í vinnu í húsinu

mbl.is/Kristinn Magnússon

Stéttarfélagið Efling hefur haft áhyggjur af aðbúnaði félagsmanna sinna, starfsmanna starfsmannaleigunnar Seiglu, sem bjuggu, að sögn samskiptafulltrúa Eflingar, í íbúðarhúsinu á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu sem brann í dag, síðan á síðasta ári. Seigla er arftaki starfsmannaleigunnar Manna í vinnu sem Efling stendur nú í málaferlum við. 

„Við höfum alltaf sagt að það væri möguleiki á að þetta myndi gerast. Það er mjög sárt að þetta skyldi gerast áður en við gátum gripið til aðgerða,“ segir Benjamin Julian, samskiptafulltrúi Eflingar sem segir með ólíkindum að forsvarsmenn Manna í vinnu geti stofnað aðra starfsmannaleigu án þess að bæta aðbúnað starfsmanna sinna frá því sem áður var en starfsfólk Seiglu býr einnig iðnaðarhúsnæði á Kársnesi, að sögn Benjamins. 

„Við höfðum fylgst með því hvernig hin nýja starfsmannaleiga væri að haga málum eftir málaferli við Menn í vinnu. Þá sáum við að fólk væri búsett þarna og þetta olli okkur áhyggjum vegna þess að þetta hús er þekkt fyrir frekar vondan aðbúnað og vonda sögu og líka möguleikann á því að hluti af því væri ekki til íbúðar. Við höfum ekki fengið staðfestingu um að fólkið sem er hjá starfsmannaleigunni búi á þeim hluta.“

Húsið er tvískipt, annars vegar er um að ræða íbúðir og hins vegar fyrrum leikskóla. Húsið var til umfjöllunar árið 2015 vegna slæms aðbúnaðar þeirra sem þar bjuggu. 

Segir Menn í vinnu hafa troðið fólki þétt í hús

Er ekki erfitt að sjá svona bruna eftir að þið höfðuð haft áhyggjur af aðbúnaði fólksins?

„Jú. Þú getur ekki ímyndað þér,“ segir Benjamin. Hann bendir á að algengt sé að starfsmannaleigur „geymi fólk í mjög tæpu húsnæði.“

„Áhyggjurnar sem við höfðum spretta af því að forveri Seiglu, starfsmannaleigunnar sem þeir vinna hjá, var með fólk í mjög vondum aðstæðum. Tróð fólki mjög þétt í hús, hirti af þeim mjög háa leigu og var með húsnæði líka í iðnaðarhúsnæði. Síðan höfðum við ekki náð að grípa inn í áður en þetta gerist,“ segir Benjamin.

Spurður hvort Efling hafi augu á fleira húsnæði sem starfsfólk starfsmannaleiga búi í við slæman aðbúnað segir Benjamin að starfsmenn Seiglu búi einnig í iðnaðarhúsnæði við Kársnesbraut 96a.

„Seigla er starfsmannaleigan sem við höfum haft mestar áhyggjur af vegna þess að fyrri aðbúnaður hefur orðið tilefni til aðgerða af okkar hálfu. Þess vegna er það mjög sárt að þetta skuli gerast áður en við gátum gripið til aðgerða.“

Málaferli Eflingar gegn Mönnum í vinnu eru enn í gangi. 

„Í raun þykir okkur það með dálitlum ólíkindum að við þurfum ítrekað að hlutast til um mál þessarar starfsmannaleigu og tengdra starfsmannaleiga. Að við séum enn og aftur að lenda í þessu og enn og aftur erum við að horfa upp á það að hún geti rekið fyrirtækið vandkvæðalaust og með þessum afleiðingum á meðan yfirvöld einbeita sér að því handtaka starfsmennina sjálfa ef þeir eru ekki með rétta pappíra. Þetta er alveg ótrúleg forgangsröðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert