Elísabet Indra Ragnarsdóttir hefur verið ráðin verkefna- og viðburðastjóri menningarmála hjá Kópavogsbæ. Elísabet Indra var valin úr hópi 242 umsækjenda.
Elísabet Indra býr að afar fjölbreyttri reynslu á sviði menningarmála en hún hefur meðal annars starfað sem dagskrárgerðarmaður hjá RÚV, verið dagskrárstjóri hjá Hörpu, framkvæmdastjóri við Mengi og útgáfustjóri hjá Íslenskri tónverkamiðstöð. Hún hefur einnig verið verkefnastýra við tónleikaröðina Reykjavík Midsummer Music sem og við tónlistardeild LHÍ og hjá Listahátíð í Reykjavík, að því er segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
„Elísabet Indra hefur kennt börnum tónlist um margra ára skeið og stýrði auk þess útvarpsþáttaröðinni Stjörnukíki á Rás 1 þar sem fjallað var um listnám og skapandi starf með börnum.
Elísabet Indra er með fiðlukennarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, BA-próf í íslensku, meistarapróf í tónlistarfræðum, diplómu í heimildaþáttagerð fyrir útvarp og lagði stund á nám í vefmiðlun og menningarmiðlun við HÍ.
Kópavogsbær rekur fimm söfn og menningarhús, Salinn, Gerðarsafn, Bókasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Héraðsskjalasafn Kópavogs. Elísabet Indra hefur störf hjá Kópavogsbæ í ágúst,“ segir í tilkynningunni.