Allt bendir til þess að kveikt hafi verið í húsinu við Bræðraborgarstíg 1 sem gjöreyðilagðist í eldsvoða í gær, segir lögmaður eiganda hússins í samtali við mbl.is. Hann segir ekkert til í því að í húsinu hafi fjöldi fólks búið á vegum starfsmannaleigu eða að brunavörnum hafi verið ábótavant.
Skráður eigandi hússins er félagið HD verk ehf. og eigandi þess er Kristinn Jón Gíslason. „Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum þá var borinn eldur að húsinu og eldurinn orsakast ekki af vanbúnaði í byggingunni,“ segir Skúli Sveinsson, lögmaður Kristins, í samtali við mbl.is.
Eldurinn dreifðist fljótt um húsið sem var byggt úr timbri árið 1906. Óstaðfestar heimildir herma að maðurinn sem handtekinn var í rússneska sendiráðinu í gær sé grunaður um að hafa kveikt í húsinu. Mbl.is hefur undir höndum myndskeið af manni sem lét öllum illum látum fyrir utan húsið í gær en ekki er vitað hvort að um sama mann sé að ræða.
„Ég veit ekki til þess að athugasemdir hafi verið gerðar við brunavarnir í þessu húsi af yfirvöldum, Eflingu eða neinum öðrum. Brunavörnum var ekki ábótavant í þessu húsi heldur voru þær í samræmi við þær kröfur sem eru gerðar til þessarar byggingar. Þær voru í fullkomlega lögmætu horfi,“ segir Skúli.
Starfsmaður stéttarfélagsins Eflingar sagði í samtali við mbl.is í gær að Efling hefði haft áhyggjur af aðbúnaði félagsmanna sinna, starfsmönnum starfsmannaleigunnar Seiglu, sem bjuggu í húsnæðinu. Hann sagði algengt að starfsmannaleigur „geymi fólk í mjög tæpu húsnæði“. Skúli vísar því algjörlega á bug.
„Umbjóðandi minn hefur ekki verið að leigja starfsmannaleigu þetta húsnæði að neinu leyti. Þetta húsnæði hefur verið í herbergjaleigu og umbjóðandi minn veit ekki til þess að neinn starfsmaður starfsmannaleigu hafið búið í þessu húsi í að minnsta kosti ár,“ segir Skúli og tekur fram að herbergin hafi verið leigð til einstaklinga af fyrirtækinu HD verk. Fyrirtækið sé fasteignafélag en ekki starfsmannaleiga.
„Það er með miklum ólíkindum að starfsmenn Eflingar séu mættir þarna og séu að reyna slá sig til riddara með yfirlýsingum um að þeir hafi haft áhyggjur af húsinu. Þeir hafa ekki komið þessum áhyggjum á framfæri við fasteignaeigandann. Ef þeir höfðu áhyggjur, af hverju var þeim ekki komið á framfæri?“ spyr hann og bætir við:
„Þau mæta á staðinn og vita ekkert um atvik máls. Þetta er fyrst og fremst gríðarlegur harmleikur. Þarna er fjöldi fólks að farast og Efling reynir að búa til PR-mál úr þessum hörmungaratburði og leita höggstaðar á þessum starfsmannaleigum sem Efling er í stríði við – sem hefur engin tengsl við umbjóðanda minn sem er eigandi hússins.“
Alþýðusamband Íslands hefur kallað eftir ítarlegri rannsókn á aðdraganda og orsökum brunans. „Það hefur engum dulist sem þekkir þetta hús að það er varla mannabústaður og hafa borist um það fjölmargar ábendingar. Engu að síður eru 73 einstaklingar með skráð lögheimili í húsinu, mest fólk af erlendum uppruna. Að líkindum er þar á ferðinni erlent verkafólk sem hefur komið hingað til lands til að vinna og bæta sinn hag,“ segir í yfirlýsingu ASÍ.
Spurður út í yfirlýsinguna segir Skúli að engar ábendingar hafi borist fasteignaeigandanum og að hann hafi engar upplýsingar um ábendingar ASÍ sem hefur þá ekki verið komið í réttan farveg.
„Varðandi lögheimilisskráningu þá er þetta herbergjaleiga og það er hverjum frjálst að skrá sig til lögheimilis hvar sem er. Fasteignaeigandi getur ekki komið í veg fyrir það og það er ekki á valdi eiganda að afskrá fólk heldur er það Þjóðskrá sem gerir það,“ útskýrir Skúli og bætir við:
„Það bjuggu ekki 73 einstaklingar þarna. Fólk getur skráð sig til heimilis hvar sem er og það virðist vera að einhverjir erlendir aðilar hafi skráð sig til heimilis þarna og síðan hafi þeir farið eitthvað annað án þess að afskrá sig.“
Þá tekur hann fram að það tíðkist að leigutakar komi og fari þegar herbergi eru leigð út og erfitt sé að hafa yfirsýn yfir hverjir búi raunverulega í herbergjunum. Þó að einn leigi herbergi þá geti einhver annað búið í því.