Landsréttur mildaði í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. desember 2019, úr nítján árum í sextán samtals, yfir þremur mönnum fyrir stórfellda amfetamínframleiðslu í sumarhúsi í Borgarfirði og kannabisrækt í Þykkvabæ.
Tveir mannanna höfðu ræktað kannabis og haft það í vörslum sínum í sölu og dreifingarskyni. Allir voru þeir sakfelldir fyrir að hafa staðið að framleiðslu á átta kílóum amfetamíni og haft það í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni.
Alvar Óskarsson og Margeir Pétur Jóhannsson voru þeir tveir sem sakfelldir voru fyrir að hafa ræktað kannabis en Einar Einarsson er þriðji maðurinn sem stóð með hinum að framleiðslu á amfetamíni.
Alvar hlaut sex ára fangelsisdóm, Einar fimm ára og Margeir fimm ára. Til frádráttar allra refsinganna kemur gæsluvarðhald sem mennirnir þrír hafa allir sætt frá 8. júní 2019, þó með þeirri undantekningu að Margeir sat ekki í varðhaldi frá 20. til 24. júní 2019.
Héraðsdómur hafði áður dæmt Alvar í sjö ára fangelsi, Margeir í sex ára fangelsi og Einar sömuleiðis. Því styttist fangelsisvist þeirra allra um eitt ár. Að öðru leyti fær dómur héraðsdóms að standa.
Einar og Alvar hlutu áður þunga dóma í Pólstjörnumálinu svokallaða.