Áhugamenn um kosningar komast í feitt um helgina, en auk forsetakosninga á Íslandi á laugardag verður kosið um forseta í Póllandi á sunnudag. Um 17.000 Pólverjar eru búsettir á Íslandi og fylgjast væntanlega grannt með gangi mála, en hluti þeirra er auk þess með íslenskan ríkisborgararétt og getur því nýtt lýðræðislegan rétt sinn í tvígang sömu helgi.
Ein þeirra er Joanna Marcinkowska, sérfæðingur í málefnum innflytjenda hjá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Hún segir pólsku forsetakosningarnar óneitanlega meira spennandi en þær íslensku.
Hlutverk forseta Póllands er um margt svipað hlutverki forseta Íslands. Embættið er aðallega formlegs eðlis en þó geti forsetinn synjað lögum staðfestingar. Ólíkt því sem Íslendingar eiga að venjast eru forsetaframbjóðendur þó oftast opinberlega tengdir tilteknum flokkum.
Tveir menn eru taldir munu berjast um hituna. Annar er Andrzej Duda, sitjandi forseti, en hann er frambjóðandi stjórnarflokksins íhaldssama Laga og réttlætis (PiS). Hinn er Rafał Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár og frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar (PO), en hann þykir frjálslyndari en mótframbjóðandi hans og nýtur stuðnings jafnt kjósenda af vinstri vængnum sem og frjálslyndra hægrimanna á borð við Donald Tusk, fyrrverandi forsætisráðherra Póllands og fyrrverandi forseta leiðtogaráðs ESB.
Þá er Dagur B. Eggertsson borgarstjóri meðal borgarstjóra víðs vegar úr Evrópu sem lýstu yfir stuðningi við Trzaskowski í kosningamyndbandi sem Trzaskowski birti á dögunum. Á móti hefur Donald Trump gefið Duda byr undir báða vængi með því að bjóða honum í Hvíta húsið í liðinni viku í fyrstu opinberu heimsókn þjóðhöfðingja til Bandaríkjanna frá því kórónuveirufaraldurinn reið yfir heimsbyggðina.
Joanna segir ekki sitt að tjá sig um ágæti frambjóðendanna en hún segist sjálf hafa hitt Trzaskowski og hann sé með allt öðruvísi sýn á alls konar málefni en sitjandi forseti. „Þeir eru ekki á sama báti til dæmis er kemur að málefnum hinsegin fólks,“ segir Joanna.
Upphaflega stóð til að kosningarnar færu fram í byrjun maí en þeim var seinkað vegna kórónuveirufaraldursins og segir Joanna að það hafi verið umdeild ákvörðun enda óvíst hvort það hafi verið lögmætt. Sömuleiðis sé nú í fyrsta sinn hægt að greiða atkvæði í póstkosningu. „Það treysta ekki margir þessum póstkosningum. Menn hafa áhyggjur af að hættan á kosingasvindli verði of mikil.“
Tvöföld umferð er í pólsku kosningunum, þ.e. kosið er að nýju milli efstu tveggja frambjóðenda að tveimur vikum liðnum nema einhver frambjóðandi fá yfir helming atkvæða í fyrri umferð. Skoðanakannanir benda til þess að Duda fái um 40% atkvæða í fyrri umferðinni en Trzaskowski um 30%. Joanna segist viss um að hvorugum takist að ná hreinum meirihluta og því þurfi að boða til seinni umferðar milli þeirra tveggja. Hver niðurstaðan verði þar verði tíminn að leiða í ljós.