Formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík vill koma þeim sem var sagt upp hjá kísilveri PCC á Bakka yfir í Norðlenska sláturhúsið fyrir sláturtíð, sem hefst 1. september. Dagsetningarnar passa, þetta eru „hörkuduglegir menn“ og tillögunni er vel tekið.
„Það er náttúrulega gríðarlegt högg þegar einn mikilvægasti vinnustaðurinn fyrir norðan tekur ákvörðun um að segja upp tveimur þriðjungum af starfsfólki sínu. Það er grafalvarlegt og bölvað,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaðurinn um uppsögn kísilversins á 80 starfsmönnum, sem var tilkynnt um í gær.
Fyrirhugað er að stöðva framleiðslu í kísilverinu eftir júlímánuð og starfsmennirnir eru flestir á uppsagnarfresti út sumarið eða svo. Fjöldi þeirra flutti á svæðið í því skyni að hefja störf hjá PCC, þannig að Aðalsteinn segir þetta meiriháttar vonbrigði.
Margir starfsmannanna eru þá af erlendum uppruna og búa í húsnæði á vegum fyrirtækisins. Aðalsteinn segir kapp lagt á að þeir missi ekki það húsnæði. „Við erum með áætlun í gangi í samstarfi við félagið, en fasteignafélag tengt þeim er með um 20 íbúðir fullar af fjölskyldufólki. Þá eru einnig eins konar verbúðir sem hýsa 30-40 manns. Við erum að kortleggja á næstunni hvernig þessu fólki verður tryggt húsnæði og ekki ýtt út úr þessu húsnæði og því hefur verið tekið mjög vel,“ segir Aðalsteinn.
Ljós í myrkrinu í þessu öllu saman er sláturtíð hjá sláturhúsi Norðlenska á Húsavík, sem á að hefjast 1. september. Aðalsteinn segir unnið að því að útvega fjölda þeirra sem var sagt upp hjá PCC starf hjá sláturhúsinu í staðinn þegar sláturtíð gengur í garð. „Þetta er náttúrulega mikið af hörkuduglegum mönnum og ég var að vona að á meðan óvissan er hjá PCC væri hægt að koma þeim í vinnu í sláturhúsinu, í stað þess að það taki inn þá erlendu starfsmenn sem það gerir ár hvert á þessum tíma. Það gæti komið sér vel,“ segir hann.
Norðlenska er eitt stærsta sláturhús á landinu og slátrar um 100 þúsund fjár þetta árið, telur Aðalsteinn. Alls er óvíst hve lengi lokunin varir í kísilverinu, þannig að annarra starfa er leitað.
Þrátt fyrir þetta eru uppsagnirnar og framleiðslustöðvunin stórt áfall fyrir lítið samfélag, á Húsavík búa um 3.000 manns. Að auki koma margir frá nærliggjandi byggðum til vinnu í kísilverinu hvern dag.
Að missa 80 störf í kísilverinu er þungt fyrir efnahaginn á svæðinu. „Þetta er stærra mál en bara kísilverið þar sem það er fjöldi hliðartengdra starfa og eins umsvif á höfninni. Það eru skip sem koma og fara með varning, enda er þetta framleiðslustarfsemi sem þarf á vöru að utan að halda. Þetta er bæði inn og út. Síðan eru launin góð í verksmiðjunni, þannig að það eru verðmæti sem fara út í samfélagið sem tapast ef störfin tapast. Þetta eru gríðarlega verðmæt störf þannig að höggið er mun meira en menn ætla,“ segir Aðalsteinn.
Aðalsteinn segist vona að starfsemi geti hafist aftur hið fyrsta en ljóst er að breytingar þurfa að verða á hrávörumarkaðnum. Álið hefur ekki verið að seljast og orkuverðið er hátt, segir hann. Ég geri ráð fyrir að forsvarsmenn PCC muni leita allra leiða til að halda starfseminni áfram þegar markaðurinn lagast. Þá þarf þó að skoða starfsumhverfið og framleiðslukostnaðinn,“ segir hann.
Hann væntir þess að Landsvirkjun sé tilbúin til að koma til móts við fyrirtækið með lægra raforkuverði, enda betra að hafa fyrirtækið í rekstri og vélarnar í gangi en að allt stoppi og tekjurnar hætti.