Atli Rafn hafði betur gegn Persónuvernd

Atli Rafn Sigurðsson leikari.
Atli Rafn Sigurðsson leikari. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í gær úr gildi úrskurð Persónuverndar í máli Atla Rafns Sigurðssonar leikara, sem höfðaði mál gegn Persónuvernd vegna úrskurðar nefndarinnar þess efnis að Borgarleikhúsinu hafi ekki verið skylt að veita honum upplýsingar í tengslum við ásakanir á hendur honum sem leiddu til uppsagnar.

Atli Rafn hafði betur gegn Persónuvernd í málinu og gerði héraðsdómur Persónuvernd jafnframt að greiða 900 þúsund krónur í málskostnað, en samkvæmt úrskurði héraðsdóms voru verulegir ágallar á úrskurði Persónuverndar, sem hafi m.a. verið byggður á nýjum lögum sem ekki höfðu tekið gildi.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í janúar í fyrra að Leikfélag Reykjavíkur og þáverandi leikhússtjóri Borgarleikhússins hefðu ekki farið að lögum þegar Atla Rafni var sagt upp störfum. 

Skylt hefði verið að gefa Atla kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og því hefði borið að upplýsa hann um eðli þeirra ásakana sem borist höfðu. Trúnaður gagnvart viðkomandi einstaklingum hefði ekki mátt leiða til þess að réttarstaða Atla yrði lakari en lög geri ráð fyrir. Voru Atla dæmdar 5,5 milljónir í skaðabætur úr hendi leikfélagsins og leikhússtjórans.

Leikfélag Reykjavíkur hefur áfrýjað dóminum og bíður málið meðferðar í Landsrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert