Skjálfti 4 að stærð í nótt

Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálfti 4 að stærð varð 33 km vestur af Grímsey klukkan 4:52 í nótt. Þá varð skjálfti að stærð 3,2 17 km norðvestur af Gjögurtá klukkan 6:02.

Jarðskjálftahrina hefur staðið yfir á svæðinu í rúma viku, eða síðan föstudaginn 19. júní. Stærstu skjálftarnir í hrinunni urðu síðastliðna helgi, þegar þrír skjálftar yfir 5 að stærð riðu yfir, tveir á laugardagskvöld og einn á sunnudagskvöld.

Sjálfvirkt kerfi Veðurstofu Íslands mældi yfir 700 skjálfta á svæðinu í gær, þar af einn yfir 3 að stærð. Frá því hrinan hófst hefur jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 7.000 skjálfta.

Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á að fleiri stærri skjálftar verði, að því er segir á vef Veðurstofunnar. Óvissustig almannavarna er í gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert