Ekki er búið að bera kennsl á þau þrjú sem létust í eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg á fimmtudag. Þetta ítrekar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í tilkynningu sem send var út síðdegis.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að kennslanefnd ríkislögreglustjóra, sem kölluð var til vegna málsins, vilji gefa sér tíma til að geta fullyrt 100 prósent hverjir viðkomandi eru.
Enn er einn á gjörgæslu og annar á almennri deild á Landspítala vegna brunans en frekari upplýsingar um líðan þeirra verða ekki gefnar að svo stöddu.
Íbúar Vesturbæjar og nágrannar í gamla Vesturbænum efna til kyrrðarstundar við Bræðraborgarstíg á morgun klukkan 18 til að votta hinum látnu virðingu sína og sýna samúð og samhug með þeim sem eiga um sárt að binda eftir eldsvoðann. Frá þessu er greint á facebooksíðunni Íbúasamtök Vesturbæjar.
Ljóst er að fólk er slegið vegna brunans en í dag var efnt til samstöðufundar á Austurvelli, þar sem athygli var vakin á bágri aðstöðu erlends verkafólks á Íslandi. Að því loknu leiddi lögregla göngu að húsinu og bauðst fólki að votta þeim látnu og aðstandendum þeirra virðingu sína með því að leggja blóm við húsið.