Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð í Klébergsskóla á Kjalarnesi vegna alvarlegs umferðarslyss sem varð á Kjalarnesi síðdegis.
Tvö bifhjól og húsbíll lentu í árekstri á Vesturlandsvegi sunnan Hvalfjarðarganga, fyrir norðan þéttbýlið á Kjalarnesi. Þrír hafa verið fluttir á slysadeild.
Viðbragðshópur Rauða krossins hefur verið kallaður út vegna slyssins og í fjöldahjálparstöðinni er hlúð að fólki og veittur sálrænn stuðningur þeim sem þess óska, en þó nokkrir urðu vitni að slysinu. Þá eru einnig fjölmargir sem komast ekki leiðar sinnar vegna vegalokana.
Björg Kjartansdóttir, sviðsstjóri hjá Rauða krossinum, segir í samtali við mbl.is að nokkrir séu komnir í stöðina en ekki liggi fyrir hversu margir þeir séu.
Uppfært klukkan 18:58:
Fjöldahjálparstöðinni var lokað um klukkan hálf sjö. Tólf manns nýttu sér úrræði hennar og verður þeim veittur áframhaldandi sálrænn stuðningur ef þess er óskað.