Ræðismaður Póllands á Íslandi segist vona að yfirvöld læri af brunanum á Bræðraborgarstíg þar sem þrír létu lífið og komi í veg fyrir að sambærilegt eigi sér stað aftur. Hann telur að verulega margir Pólverjar búi við óæskilegar aðstæður hér á landi.
Enn á eftir að bera kennsl á þau þrjú sem féllu frá en að hans sögn er líklega um pólska ríkisborgara á þrítugs- og fertugsaldri að ræða. Bæði sendiráð Póllands og lögreglan hafa verið í samskiptum við fjölskyldur fólksins sem búa í Póllandi.
Sex Pólverjar sem bjuggu í húsinu eru nú heimilislausir en sendiráð Póllands hefur fundið þeim samastað fyrir næstu daga. Það var ekki auðvelt og ekki er um að ræða varanlegt búsetuúrræði, að sögn Jakubs Pilch, ræðismanns Póllands hér á landi.
„Ég vona að yfirvöld læri af þessu,“ segir hann.
„Þau ættu að ganga úr skugga um að svona lagað eigi sér ekki stað aftur, til dæmis með því að fylgjast betur með fyrirtækjum eins og starfsmannaleigum og lífskjörum starfsmanna þeirra sem og að sjá til þess að sjötíu manns geti ekki haft aðsetur á einu heimilisfangi ef þar er ekki pláss fyrir svo marga. Í það minnsta ætti þá að hefja rannsókn á því hvers vegna svo margir búa á einu heimilisfangi vegna þess að það er ekki venjulegt.“
Stéttarfélagið Efling sagði í kjölfar brunans að í húsinu hefði búið fólk á vegum starfsmannaleigu. Jakub segist ekki vita til þess að þeir pólsku ríkisborgarar sem bjuggu í húsinu hafi starfað hjá starfsmannaleigum þótt vera kunni að einhverjir sem þar bjuggu hafi gert það.
Spurður hvort sendiráð Póllands muni þrýsta á aðgerðir í kjölfar brunans segir Jakub:
„Okkar hlutverk er ekki að beita þrýstingi vegna þess að þetta eru fullveldismál íslenska ríkisins. Okkar hlutverk er frekar að vekja athygli á þessu málefni og óska eftir skýringu á því hvað hafi gerst þarna.“
Jakub segist ekki vita hversu margir pólskir ríkisborgarar búi við óviðunandi aðstæður hér á landi en telur að þeir séu verulega margir.
„Ég hef séð aðstæðurnar sem sumt fólk býr við og þær eru hryllilegar. Ég veit ekki nákvæmlega hversu margir búa við slæmar aðstæður en ég er viss um að verulega margir búa í það minnsta við óæskilegar aðstæður.“
Árið 2018 sagði Jakub í fréttaskýringaþættinum Kveik að hann fengi vikulega inn á borð til sín kvartanir frá Pólverjum sem yrðu fyrir slæmri meðferð vinnuveitenda sinna. Hann segir að slíkum kvörtunum hafi fækkað en þær fyrirfinnist enn.
„Það er enn eitthvað um að Pólverjar hér á landi eigi í vandræðum með vinnuveitendur sína og eigi ekki þess kost að leysa þau. Ég hitti oftar fólk sem á í vandræðum vegna starfsmannaleigna en annarra vinnuveitenda.“