Sífellt þarf að endurskoða áætlaða dagsetningu á afléttingu hafta, 13. júlí, vegna þeirra innanlandssmita sem upp eru komin, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem segir alltaf von á nýjum tillögum frá sér til heilbrigðisráðherra.
Knattspyrnukona í Fylki greindist smituð af kórónuveirunni í dag og bætist hún þannig í hóp nokkurra annarra smitaðra knattspyrnumanna og -kvenna sem eru öll talin tengjast útskriftarveislu um síðustu helgi.
„Þetta er hluti af þessari hópsýkingu eða hrinu sem við höfum verið að sjá um og fyrir helgina,“ segir Þórólfur.
Þórólfur segir að smitrakningarteymi almannavarna hafi verið stækkað að nýju vegna innanlandssmitanna en er þó ekki viss um að jafn margir komi að smitrakningum nú og þegar útbreiðsla veirunnar stóð sem hæst hér á landi.
„Fólk vann þá á vöktum líka en ég held að öll borð séu nú full sem gert var ráð fyrir þannig að smitrakningarteymið er farið á fullt. Þetta er stór hópur sem þarf að hafa samband við.“
Þórólfur gaf áður út að slakað yrði á takmörkunum 13. júlí næstkomandi. Spurður hvort innanlandssmitin gefi ekki tilefni til að fara hægar í sakirnar segir Þórólfur:
„Það þarf að vera í sífelldri endurskoðun miðað við það sem er í gangi. Þetta er allt í þannig endurskoðun að þetta er ekkert grafið í stein. Við þurfum aðeins að skoða hvernig staðan er en það er ekki búið að ákveða neitt.“
Á blaðamannafundi á föstudaginn sagði Þórólfur að til greina kæmi að senda Íslendinga sem koma hingað til lands frá áhættusvæðum, til dæmis Bandaríkjunum, í sóttkví og láta þannig ekki skimunina á landamærunum duga. Ekkert hefur verið ákveðið um það enn.
Knattspyrnukonan sem innanlandssmitin hafa verið rakin til kom til landsins frá Bandaríkjunum og greindist ekki smituð í landamæraskimun. Viku síðar fór hún í veirupróf vegna þess að hún hafði hitt manneskju í Bandaríkjunum sem síðar greindist smituð. Í síðara prófinu greindist knattspyrnukonan smituð. Spurður hvort til skoðunar hafi komið að Íslendingar fari bæði í veirupróf á landamærunum og nokkrum dögum síðar segir Þórólfur:
„Það eru alls konar möguleikar til skoðunar.“
Þórólfur segir að mikið sé nú tekið af sýnum í kringum innanlandssmitin. Hann búist ekki endilega við því að fleiri smit komi upp sem þeim tengjast og vonar það besta.