Á annað hundrað minntust hinna látnu

mbl.is/Arnþór Birkisson

Um 100 til 150 manns komu sam­an á kyrrðar­stund við Bræðra­borg­ar­stíg nú klukk­an sex. Þar var fólk sam­an komið til að votta þeim sem lét­ust í bruna þar fyr­ir helgi virðingu sína og til þess að sýna samúð og sam­hug með þeim sem eiga um sárt að binda eft­ir elds­voðann. 

Virðing var í loft­inu á kyrrðar­stund­inni og þögn­in alls­ráðandi ef frá eru tal­in nokk­ur minn­ing­ar­orð sem flutt voru. Þau sem á kyrrðar­stund­ina komu voru mörg hver með blóm sem lögð voru upp að hús­inu sem brann. Kyrrðar­stund­in var á veg­um íbúa Vest­ur­bæj­ar og ná­granna þeirra í gamla Vest­ur­bæn­um.

Eins og áður hef­ur komið fram lét­ust þrjú í brun­an­um en ekki hef­ur tek­ist að bera kennsl á þau með óyggj­andi hætti. Þá missti fjöldi fólks heim­ili sitt, í það minnsta sex pólsk­ir rík­is­borg­ar­ar. 

Ljóst er að fólk er slegið vegna brun­ans en í gær var efnt til sam­stöðufund­ar á Aust­ur­velli, þar sem at­hygli var vak­in á bágri aðstöðu er­lends verka­fólks á Íslandi. Að því loknu leiddi lög­regla göngu að hús­inu og bauðst fólki að votta þeim látnu og aðstand­end­um þeirra virðingu sína með því að leggja blóm við húsið.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert