„Okkar fyrstu viðbrögð eru sorg og samúð með þeim sem eiga um sárt að binda í kjölfar þessa hörmulega slyss og við treystum því að yfirvöld reyni að komast til botns í því hvað fór þarna hugsanlega úrskeiðis,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, um banaslys sem varð á Kjalarnesi í gær þar sem tveir létu lífið.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins og beinast sjónir að nýlögðu slitlagi á vegarkaflanum. Úttekt var gerð á vegarkaflanum í morgun og verður nýtt malbik lagt yfir kaflann þar sem nýlögnin stenst ekki staðla og útboðsskilmála varðandi viðnám.
„Annars vegar er þetta útboð sem á að uppfylla ákveðnar kröfur um efnainnihald, gæði og verkferla og hins vegar er eftirlit með því. Við treystum því að það verði komist til botns í því að finna út, ef eitthvað hefur farið úrskeiðis, hvað hefur farið úrskeiðis og að svo horfi menn til framtíðar að þetta geti ekki gerst aftur,“ segir Runólfur.
Hann segir lögin mjög skýr, ábyrgð á framkvæmdum liggur hjá veghaldara sem er Vegagerðin. „En svo höfum við gagnrýnt að ábyrgð veghaldara hér á landi er töluvert veikari en við þekkjum í nágrannalöndum okkar. En ef það kemur upp á yfirborðið að það er vanhald varðandi veghaldið er fyrsti ábyrgðaraðili Vegagerðin sem veghaldari.“
Runólfur segir tilvikið ekki einangrað en FÍB hafi borist ábendingar nýlega um yfirborðsslitlög þar sem hættulegar aðstæður hafa skapast, meðal annars á Bústaðavegi og á Reykjanesbraut.
Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar, hafa boðað til mótmæla við húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni á morgun í kjölfar umferðarslyssins. FÍB tengjast mótmælunum ekki beint en leggjast heldur ekki gegn þeim. Runólfur segir að samstöðufundur af einhverju tagi væri nær í lagi þessa stundina. „Meginmarkmiðið er að byrgja brunninn og tryggja að þetta komi ekki fyrir aftur.“