„Förum ekkert áfram með því að ala á reiði“

Á morgun koma mótorhjólamenn saman í porti Vegagerðarinnar á samstöðufundi …
Á morgun koma mótorhjólamenn saman í porti Vegagerðarinnar á samstöðufundi vegna slyssins. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. mbl.is/Árni Sæberg

Víða á þjóðvegi eitt leynast hættuleg svæði fyrir mótorhjólamenn að sögn talsmanns hópsins Vega og mótorhjóla sem stofnaður var í kjölfar banaslyss sem varð á Kjalarnesi í gær. Hann er ánægður með það hvernig stjórnvöld, Vegagerðin og þingmenn hafa brugðist við í kjölfar slyssins og vonar að gripið verði til aðgerða til þess að auka umferðaröryggi mótorhjólamanna og annarra. Það sé þó einnig samfélagsleg ábyrgð mótorhjólamanna að fræða aðra mótorhjólamenn um hættur í umferðinni. 

„Auðmýktin inni í vegakerfi og á Alþingi er mikil. Það eru allir tilbúnir til þess að setja sín lóð á vogarskálarnar til að kanna hvað gerðist, ekki bara þarna heldur á fleiri vegarköflum sem hafa verið malbikaðir nýlega,“ segir Stefán Sæbjörnsson, einn af talsmönnum hópsins Vega og mótorhjóla.

„Þetta má ekki sofna og við verðum að vera vakandi og svolítið umburðarlynd, þolinmóð og bíða svara. Auðvitað eru margir reiðir en ég held, allavega miðað við þær móttökur sem við fengum í dag, að þetta sé í mjög góðum farvegi og ég vil trúa því. Við þurfum ekki að standa og mótmæla einhverju heldur að standa saman frekar vegna þess að móttökurnar voru með þeim hætti sem þær voru.“

Stefán Óli Sæbjörnsson er einn af þeim sem standa að …
Stefán Óli Sæbjörnsson er einn af þeim sem standa að hópnum Vegir og mótorhjól.

Hvítu línurnar „stórhættulegar“

Stefán vill því hvetja til samstöðu og hefur mótmælum mótorhjólamanna við Vegagerðina á morgun verið breytt í samstöðufund í porti Vegagerðarinnar. 

„Hitt er fullreynt, við förum ekkert áfram með því að ala á reiði.“

Stefán segir að nýtt malbik sé alltaf hættulegt, sérstaklega gagnvart mótor- og reiðhjólum, og fleiri kaflar á þjóðveginum séu þeim hættulegir. 

„Þar þarf maður að fara sérstaklega varlega. Hvítu línurnar á öllu gatnakerfi eru stórhættulegar í bleytu. Þetta vitum við en það er spurning hvort við þurfum að fara í eitthvert átak til þess að vekja athygli á því. Það er nokkuð sem ég lít svo á að sé hluti af samfélagslegri ábyrgð. Þá er gott að vita að við höfum stofnanir eins og Vegagerðina, samgönguráðuneytið og FÍB sem eru fúsar til að styðja við bakið á því sem og þá þingmenn sem ég talaði við í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert