„Gerðu bar kóðann tilbúinn“

Skiltið í flugstöðinni sem býður viðstöddum að hafa „bar kóðann“ …
Skiltið í flugstöðinni sem býður viðstöddum að hafa „bar kóðann“ til reiðu. Eiríkur Rögnvaldsson segir að ýmislegt megi afsaka sé hugtakið ekki til á íslensku, en svo sé ekki í þessu tilfelli þar sem flestir kannist við orðið strikamerki. mbl.is/Skúli Halldórsson

Skilti í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar, merkt land­lækni og al­manna­vörn­um, hvet­ur ferðalanga til að hafa „bar kóða“ sína til­búna og hef­ur vakið at­hygli þeirra sem láta sig vöxt og viðgang ís­lenskr­ar tungu varða og ef til vill ekki að ástæðulausu, enda strika­merki löngu þekkt ís­lenskt hug­tak.

„Þetta skilti er ekki á veg­um okk­ar í Isa­via,“ sagði Guðjón Helga­son, upp­lýs­inga­full­trúi þar á bæ, þegar mbl.is falaðist eft­ir viðbrögðum hans síðdeg­is í gær. „Þetta er á veg­um al­manna­varna­nefnd­ar rík­is­lög­reglu­stjóra enda staðsett á svæðinu þar sem Covid-skimun­in fer fram. Orðalagið á skilt­inu var þar með aldrei borið und­ir Isa­via svo ég get ekki svarað fyr­ir það hvernig þarna er kom­ist að orði,“ sagði Guðjón.

„Skimun­ar­verk­efni heil­brigðis­yf­ir­valda á Kefla­vík­ur­flug­velli hef­ur gengið vel,“ sagði hann, spurður um stöðu mála þar úr því sím­talið var hafið hvort sem var. „Flæðið á flug­vell­in­um hef­ur verið gott meðan á skimun hef­ur staðið, en flug­völl­ur­inn er reynd­ar rek­inn á aðeins 4-5 pró­sent­um af venju­leg­um af­köst­um vegna þessa heil­brigðis­verk­efn­is,“ sagði upp­lýs­inga­full­trú­inn.

Dæmi um hráa yf­ir­færslu

„Þetta er svo­lítið skrýtið sko,“ viður­kenn­ir Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emer­it­us í ís­lensku nú­tíma­máli við Há­skóla Íslands, þegar mbl.is ber orðalag skilt­is­ins und­ir hann. Pró­fess­or­inn er hinn hress­asti, sest­ur upp með kaffi­bolla í sum­ar­bú­stað fjöl­skyld­unn­ar í Blöndu­hlíð í Skagaf­irði, enda Skag­f­irðing­ur að upp­runa, ættaður úr Djúpa­dal þar nyrðra.

„Þetta hef­ur nú kall­ast strika­merki hingað til og ég held nú að all­ir skilji það,“ seg­ir Ei­rík­ur. „Þetta er auðvitað dæmi um al­veg hráa yf­ir­færslu úr ensku og auðvitað get­ur maður af­sakað sumt ef ekk­ert orð er til, en það er nú ekki til­fellið með þetta,“ seg­ir hann.

Ei­rík­ur seg­ir ekki heigl­um hent að benda á um­merki sem gefi til kynna að tungu­mál­inu hafi bein­lín­is hrakað eft­ir alda­mót og sam­fé­lags­miðla­bylt­ingu. „Við Sig­ríður Sig­ur­jóns­dótt­ir [pró­fess­or í ís­lenskri mál­fræði við Há­skóla Íslands] höf­um verið með stóra mál­fræðirann­sókn í gangi und­an­farið sem ekki er búið að vinna úr að öllu leyti, en auðvitað sér maður ýmis dæmi, til dæm­is um enska setn­inga­gerð sem smeyg­ir sér inn í málið,“ seg­ir pró­fess­or­inn og bend­ir sér­stak­lega á mun á ald­urs­hóp­um hvað þetta varðar.

Mik­il enska í mál­um­hverf­inu

„Börn og ung­ling­ar hafa gríðarlega mikla ensku í mál­um­hverfi sínu sem hef­ur auðvitað heil­mik­il áhrif,“ seg­ir Ei­rík­ur og bend­ir á að fleiri þætt­ir komi einnig að málþróun þjóðar­inn­ar. „Nú er heil­mikið er­lent vinnu­afl komið í fjölda þjón­ust­u­starfa á Íslandi og fjöldi Íslend­inga tal­ar ensku við sam­starfs­fólk sitt. Þegar fyr­ir banka­hrunið var talað um að enska væri orðin vinnu­mál á Íslandi, en svo varð auðvitað bak­slag í því þegar er­lendu fólki fækkaði á ís­lensk­um vinnu­markaði,“ seg­ir Ei­rík­ur og tek­ur jafn­framt fram að ís­lensk­ur mál­not­andi sem bú­sett­ur er á Íslandi taki ekki endi­lega eft­ir smærri þró­un­ar­atriðum máls­ins.

„Þú mynd­ir kannski taka meira eft­ir því en ég af því að þú ert ekki í þessu mál­sam­fé­lagi dags dag­lega,“ seg­ir Ei­rík­ur og vís­ar til þess að blaðamaður er bú­sett­ur í Nor­egi. „En nú er líka í gangi þetta mál­tækni­átak sem geng­ur út á að gera ís­lensku gjald­genga í tölv­um og það vinn­ur von­andi á móti þessu,“ seg­ir Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emer­it­us í ís­lensku nú­tíma­máli, að skilnaði og á við er­lend áhrif, barkóða og aðrar am­bög­ur í ís­lensku mál­sam­fé­lagi.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert