„Gerðu bar kóðann tilbúinn“

Skiltið í flugstöðinni sem býður viðstöddum að hafa „bar kóðann“ …
Skiltið í flugstöðinni sem býður viðstöddum að hafa „bar kóðann“ til reiðu. Eiríkur Rögnvaldsson segir að ýmislegt megi afsaka sé hugtakið ekki til á íslensku, en svo sé ekki í þessu tilfelli þar sem flestir kannist við orðið strikamerki. mbl.is/Skúli Halldórsson

Skilti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, merkt landlækni og almannavörnum, hvetur ferðalanga til að hafa „bar kóða“ sína tilbúna og hefur vakið athygli þeirra sem láta sig vöxt og viðgang íslenskrar tungu varða og ef til vill ekki að ástæðulausu, enda strikamerki löngu þekkt íslenskt hugtak.

„Þetta skilti er ekki á vegum okkar í Isavia,“ sagði Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi þar á bæ, þegar mbl.is falaðist eftir viðbrögðum hans síðdegis í gær. „Þetta er á vegum almannavarnanefndar ríkislögreglustjóra enda staðsett á svæðinu þar sem Covid-skimunin fer fram. Orðalagið á skiltinu var þar með aldrei borið undir Isavia svo ég get ekki svarað fyrir það hvernig þarna er komist að orði,“ sagði Guðjón.

„Skimunarverkefni heilbrigðisyfirvalda á Keflavíkurflugvelli hefur gengið vel,“ sagði hann, spurður um stöðu mála þar úr því símtalið var hafið hvort sem var. „Flæðið á flugvellinum hefur verið gott meðan á skimun hefur staðið, en flugvöllurinn er reyndar rekinn á aðeins 4-5 prósentum af venjulegum afköstum vegna þessa heilbrigðisverkefnis,“ sagði upplýsingafulltrúinn.

Dæmi um hráa yfirfærslu

„Þetta er svolítið skrýtið sko,“ viðurkennir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku nútímamáli við Háskóla Íslands, þegar mbl.is ber orðalag skiltisins undir hann. Prófessorinn er hinn hressasti, sestur upp með kaffibolla í sumarbústað fjölskyldunnar í Blönduhlíð í Skagafirði, enda Skagfirðingur að uppruna, ættaður úr Djúpadal þar nyrðra.

„Þetta hefur nú kallast strikamerki hingað til og ég held nú að allir skilji það,“ segir Eiríkur. „Þetta er auðvitað dæmi um alveg hráa yfirfærslu úr ensku og auðvitað getur maður afsakað sumt ef ekkert orð er til, en það er nú ekki tilfellið með þetta,“ segir hann.

Eiríkur segir ekki heiglum hent að benda á ummerki sem gefi til kynna að tungumálinu hafi beinlínis hrakað eftir aldamót og samfélagsmiðlabyltingu. „Við Sigríður Sigurjónsdóttir [prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands] höfum verið með stóra málfræðirannsókn í gangi undanfarið sem ekki er búið að vinna úr að öllu leyti, en auðvitað sér maður ýmis dæmi, til dæmis um enska setningagerð sem smeygir sér inn í málið,“ segir prófessorinn og bendir sérstaklega á mun á aldurshópum hvað þetta varðar.

Mikil enska í málumhverfinu

„Börn og unglingar hafa gríðarlega mikla ensku í málumhverfi sínu sem hefur auðvitað heilmikil áhrif,“ segir Eiríkur og bendir á að fleiri þættir komi einnig að málþróun þjóðarinnar. „Nú er heilmikið erlent vinnuafl komið í fjölda þjónustustarfa á Íslandi og fjöldi Íslendinga talar ensku við samstarfsfólk sitt. Þegar fyrir bankahrunið var talað um að enska væri orðin vinnumál á Íslandi, en svo varð auðvitað bakslag í því þegar erlendu fólki fækkaði á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Eiríkur og tekur jafnframt fram að íslenskur málnotandi sem búsettur er á Íslandi taki ekki endilega eftir smærri þróunaratriðum málsins.

„Þú myndir kannski taka meira eftir því en ég af því að þú ert ekki í þessu málsamfélagi dags daglega,“ segir Eiríkur og vísar til þess að blaðamaður er búsettur í Noregi. „En nú er líka í gangi þetta máltækniátak sem gengur út á að gera íslensku gjaldgenga í tölvum og það vinnur vonandi á móti þessu,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku nútímamáli, að skilnaði og á við erlend áhrif, barkóða og aðrar ambögur í íslensku málsamfélagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert