Í mörgum tilvikum stórhættulegt húsnæði

Eigandi Bræðraborgarstígs 1 átti einnig húsnæði sem var á útleigu …
Eigandi Bræðraborgarstígs 1 átti einnig húsnæði sem var á útleigu til starfsmannaleigunnar Manna í vinnu í Kópavogi í fyrra. Aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ segir málin tengd og gagnrýnir að þeir sem sinna eigi eftirliti með húsnæði fyrir verkafólk sinni því í raun og veru alls ekki. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

HD verk ehf., eigandi hússins sem brann á Bræðraborgarstíg 1 á fimmtudaginn, er einnig eigandi húsnæðis á Hjallabrekku og á Dalvegi, sem var á leigu til starfsmannaleigunnar Manna í vinnu þar til ljóstrað var upp um óviðunandi aðstæður verkamannanna sem þar bjuggu í febrúar 2019. Eigandi HD verk er Kristinn Jón Gíslason, en hann keypti fyrirtækið fyrir um tveimur og hálfu ári.

„Það þarf ekki mikla þekkingu eða kúnstir til þess að leggja saman tvo og tvo í þessu tilfelli,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, við mbl.is. Hann segir að þeir aðilar sem eigi að hafa eftirlit með húsnæði á vegum vinnuveitenda séu ekki að sinna hlutverki sínu, eins og vikið er betur að hér neðar.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. mbl.is/Styrmir Kári

Ásamt því sem HD verk er eigandi húsnæðisins hafa starfsmenn stéttarfélagsins Eflingar sagt að á Bræðraborgarstíg 1 hafi búið starfsfólk starfsmannaleigunnar Seiglu, sem á að vera arftaki Manna í vinnu, þannig að tengingin er þá jafnframt sú á milli þessara tveggja mála. Þau endurspegla síðan ástand sem teygir sig um allt íslenskt samfélag og hafa eldsvoðinn og skelfilegar afleiðingar hans komið af stað mikilli umræðu um slæma stöðu erlends verkafólks á Íslandi.

Kennitöluflutningar málamyndagjörningur 

Halldór telur að þúsundir verkamanna á Íslandi, einkum erlendra, búi við það að vinnuveitandi þeirra útvegi þeim húsnæði. Þar með er starfsfólkið mjög háð fyrirtækinu, því missi það vinnuna missir það um leið húsnæðið. Úr því að atvinnu og húsnæði er í svo mörgum tilvikum tvinnað saman er verkafólkið skiljanlega í erfiðri stöðu með að gera miklar athugasemdir við húsakost sinn. Hann er síðan eins og komið hefur á daginn oft óviðunandi til búsetu, með öðrum orðum „í mörgum tilvikum stórhættulegt húsnæði, þar sem hvorki brunavarnir né annað sem lög gera ráð fyrir er í lagi,“ segir Halldór. 

Þegar húsnæði er ólöglegt er þó bót í máli fyrir vinnuveitendur sem hafa þennan háttinn á að engin sérstök takmörk virðast vera fyrir því að hrúga kennitölum saman á löglegt lögheimili, á meðan raunveruleg búseta starfsfólksins er í því ólöglega. Að mati Halldórs er sá kennitölufjöldi sem var í 192 íbúðarfermetrunum á Bræðraborgarstígi 1, þ.e. 73, til marks um málamyndatilfæringar á kennitölum, því að ljóst hafi verið að svo margir hafi ekki haft þar búsetu.

„Okkur þykir mjög sérkennilegt að þetta skuli vera heimilt og Þjóðskrá taki bara við skráningum endalaust, þegar sannarlega er um einhvers konar málamyndagjörning að ræða. Mér þætti eðlilegt að það hringdu einhverjar viðvörunarbjöllur þarna, en það virðist enginn opinber aðili ábyrgur fyrir því að fylgja þessu eftir,“ segir Halldór.

Húsið, á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu, brann mjög illa. Neðsta …
Húsið, á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu, brann mjög illa. Neðsta hæðin slapp að mestu. Eggert Jóhannesson

Á Bræðraborgarstíg 1 er löglegt íbúðarhúsnæði en engu síður leikur grunur á að fólki sem bjó raunverulega á staðnum hafi verið hætta búin af aðstæðum þar. mbl.is hefur þannig rætt við fólk sem bjó í húsinu á árunum 2013-2014 og var brunavörnum þá mjög ábótavant. Síðan kann hvaðeina að hafa breyst en þó er vitað að fólk sem var inni þegar eldurinn braust út sá þann kost einan í stöðunni að stökkva út af þriðju hæð.

Hafa ekki verið að sinna þessum málum nokkurn skapaðan hlut

Sú stjórnsýslueining sem á að hafa eftirlit með húsnæði sem vinnuveitendur útvega verkafólki sinnir ekki eftirlitinu, að sögn Halldórs. Það eru svonefndar heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna. „Okkar reynsla er sú að þessir aðilar hafi ekki verið að sinna þessum málum nokkurn skapaðan hlut,“ segir Halldór.

Þess vegna segir hann afstöðu ASÍ á þá leið að hyggilegra væri að færa eftirlit með íbúðarhúsnæði á vegum vinnuveitenda til Vinnueftirlitsins. Þegar hafi það eftirlit með sjálfu atvinnuhúsnæðinu og því væri eðlilegt að það hefði eftirlit með því íbúðarhúsnæði sem er á vegum atvinnurekandans. 

„Fram að þessu hafa þessi sjónarmið ekki fengið miklar undirtektir en það kæmi ekki á óvart að við fengjum meiri athygli á þau í framhaldi af brunanum á Bræðraborgarstíg,“ segir Halldór. Þegar hafi því verið komið til leiðar í lögum að óheimilt sé að binda leigusamninga við ráðningarsamninga og nú sé næst lag að koma á fót almennilegu eftirliti með því húsnæði sem vinnuveitendur útvega starfsfólki sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert