Yfir níu þúsund jarðskjálftar hafa mælst við mynni Eyjafjarðar síðustu tíu daga. Jarðskjálftahrina hófst þar 19. júní og er enn yfirstandandi.
Heldur hefur þó dregið úr styrk hennar en í gærkvöldi um klukkan 19:47 mældist skjálfti af stærð 3,6 um 20 km NA af Siglufirði. Síðar kl. 23:25 mældist annar skjálfti á sömu slóðum af stærð 3,0. Tilkynningar bárust Veðurstofu um að báðir þessir skjálftar hefðu fundist á Siglufirði sem og á Ólafsfirði.
Stærsti skjálftinn í hrinunni varð sem kunnugt er sunnudagskvöldið 21. júní klukkan 19:07 af stærð 5,8 rúma 30 km NNA af Siglufirði. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði.
Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða. Óvissustig almannavarna er enn í gildi á Norðurlandi vegna skjálftahrinunnar.