Níu þúsund jarðskjálftar á tíu dögum

Jarðskjálftahrinan sem hófst fyrir tíu dögum á Norðurlandi er enn …
Jarðskjálftahrinan sem hófst fyrir tíu dögum á Norðurlandi er enn yfirstandandi. Tveir jarðskjálftar, 3 eða stærri, hafa mælst síðustu tvo sólarhringa og fundust þeir á Siglufirði og Ólafsfirði. Kort/Veðurstofa Íslands

Yfir níu þúsund jarðskjálftar hafa mælst við mynni Eyjafjarðar síðustu tíu daga. Jarðskjálftahrina hófst þar 19. júní og er enn yfirstandandi. 

Heldur hefur þó dregið úr styrk hennar en í gærkvöldi um klukkan 19:47 mældist skjálfti af stærð 3,6 um 20 km NA af Siglufirði. Síðar kl. 23:25 mældist annar skjálfti á sömu slóðum af stærð 3,0. Tilkynningar bárust Veðurstofu um að báðir þessir skjálftar hefðu fundist á Siglufirði sem og á Ólafsfirði.

Stærsti skjálftinn í hrinunni varð sem kunnugt er sunnudagskvöldið 21. júní klukkan 19:07 af stærð 5,8 rúma 30 km NNA af Siglufirði. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði.

Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða. Óvissustig almannavarna er enn í gildi á Norðurlandi vegna skjálftahrinunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert