Ólöf Breiðfjörð hefur hafið störf sem menningarfulltrúi Garðabæjar. Staðan er ný af nálinni og er ætlað að efla starfsemi Hönnunarsafns Íslands, Bókasafns Garðabæjar, minjagarðsins Hofs, burstabæjarins Króks og aðra starfsemi á sviði menningar í bænum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Garðabæ.
Undanfarin fjögur ár hefur Ólöf starfað sem viðburðastjóri Menningarhúsanna í Kópavogi þar sem hún byggði upp menningarstarf í bænum með sérstaka áherslu á börn og fjölskyldur en Elísabet Indra Ragnarsdóttir hefur verið ráðin í stað Ólafar. Ólöf var kynningarstjóri Þjóðminjasafnsins um nokkurra ára skeið en hún er þjóð- og safnafræðingur að mennt.
„Ég er mjög spennt fyrir að takast á við að innleiða breytingar í menningarlífinu í Garðabæ og það er vissulega ansi mikið verk fram undan og starfið mikil áskorun. Fyrir fjórum árum þegar ég hóf störf í Kópavogi stóð ég einnig frammi fyrir miklum áskorunum í þá veru að koma á betra samstarfi milli ólíkra menningarstofnana og það var einmitt það sem heillaði mig við starfið í Garðabæ; að fá að byrja með næstum tómt blað og móta og þróa í þá átt að blómlegt menningarstarf verði að veruleika í Garðabæ. Sérstaðan hér er auðvitað Hönnunarsafn Íslands og minjagarðurinn og hvort tveggja eru staðir sem eiga erindi við alla, óháð búsetu,“ segir Ólöf.