Sami verktaki leggur nýja yfirlögn

mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Sami verktaki og lagði yfirlögn á malbik á Kjalarnesi, sem var að sögn Vegagerðarinnar mun hálli en kröfur hennar kveða á um, mun leggja nýju yfirlögnina sem lögð verður á næstunni. Þetta segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, sem telur verktakanum treystandi.

Nýju yfirlögnina á að leggja til að minnka hálkuna sem myndaðist í fyrri yfirlögn sem verktakinn lagði. Banaslys varð á veginum í gærkvöldi.

„Það er sami verktaki sem fer í það og í sjálfu sér á þessi verktaki að vera hæfur til þess,“ segir Bergþóra.

Gangi ekki svona

Spurð hvort Vegagerðin treysti verktakanum til þess að leggja nú yfirlögn sem standist kröfur segir Bergþóra:

„Já, við gerum það og erum náttúrlega búin að fara yfir það að þetta gangi ekki svona með báðum þessum verktökum. Þetta eru reyndir menn.“

Með báðum verktökunum á Bergþóra við verktakann sem lagði yfirlögnina sem og þann sem hafði eftirlit með verkinu og tók það út við verklok og mat þá slitlagið sem svo að það væri ásættanlegt ef hálkuviðvörun væri komið upp. 

Bergþóra Þorsteinsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.
Bergþóra Þorsteinsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. Ljósmynd/Stjórnarráð Íslands

Óumdeilt að yfirlögnin var ekki eins og Vegagerðin vildi

Verkinu, sem snertir vegarkaflann sem slysið varð á, lauk á föstudagsmorgun. 

„Það er eftirlitið sem er í þessu verki sem tekur þetta út. Eftirlitsaðilinn mat þetta þannig að þetta væri ásættanlegt með hálkuviðvörun en síðan hefur þetta efni ekki jafnað sig eins og til stóð og hálkan verið meiri en hann mat,“ segir Bergþóra.

„Þetta er unnið af verktökum en þeir vinna náttúrlega eftir verklýsingum. Við breyttum verklagi en þar til í dag hefur það verið þannig að það er eftirlitsaðilinn sem ákveður hvort skiltað sé með hálkuviðvörun og hvort hámarkshraði sé lækkaður.“

Nú hefur orðið breyting þar á en verktakar verða framvegis skyldaðir til að setja upp viðvaranir sem og að lækka hámarkshraða. Spurð hvort verktakinn sé ósammála því að verkið hafi ekki uppfyllt kröfur Vegagerðarinnar segir Bergþóra:

„Það er óumdeilt að yfirlögnin er ekki eins og við viljum hafa hana, ekki eins og okkar skilmálar segja til um.“

Við erum ekki óvinir, við erum samherjar“

Bergþóra hefur áður gefið út að Vegagerðin axli ábyrgð á því að útvista verkefnum. Spurð hvort verktakarnir beri ekki einhverja ábyrgð segir hún:

„Við erum að sjálfsögðu ábyrg fyrir því að bjóða út þetta verk og fá til þess fólk. Auðvitað bera þeir líka ábyrgð en það er ekki óeðlilegt að það sé hálka á nýju malbiki þótt í þessu tilviki séum við ósátt við niðurstöðu verksins.“

Mótorhjólamenn funduðu með Vegagerðinni í dag vegna slyssins og munu funda aftur með stofnuninni á morgun, að sögn Bergþóru. Hún hefur búið svo um hnútana að hliðið að portinu við Vegagerðina verði opið á morgun svo mótorhjólamenn geti fjölmennt á mótmæli sem þar á að halda.

„Við erum alltaf opin fyrir öllum sem vilja tala við Vegagerðina. Mótorhjólamenn eru bara eins og aðrir Íslendingar og hafa not fyrir þetta samgöngukerfi sem við þjónum og þeir eru velkomnir til okkar. Ég átti fund með forsvarsmönnum þeirra í dag og geri ráð fyrir að hitta þá aftur á morgun. Við erum ekki óvinir, við erum samherjar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert