1.094 króna umbun: „Betra að fá ekki neitt“

Gréta María Björnsdóttir vann 5-6 daga í viku í miðju …
Gréta María Björnsdóttir vann 5-6 daga í viku í miðju fæðingarorlofi þegar kórónuveirufaraldurin reis hæst. Ljósmynd/Aðsend

Gréta María Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur og bakvörður, starfaði frá miðjum mars til miðs apríl á Landspítalanum, þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. Hún mætti á 5-6 vaktir í viku í um mánuð þrátt fyrir að vera í miðju fæðingarorlofi með fimm mánaða gamalt barn heima.

Gréta gladdist þegar sagt var frá því að umbun yrði úthlutað til allra starfsmanna sjúkrahússins vegna aukins álags af völdum kórónuveirunnar. Gleðin var þó fljót að breytast í vonbrigði þegar sjálf umbunin barst: Útborgun upp á 1.094 krónur, eftir að 5.681 krónur höfðu verið dregnar frá 6.775 króna launaseðlinum.

„Þetta er ekki villa, þó að ég hafi haldið það fyrst. Mér hefði í rauninni fundist betra að fá ekki neitt en að fá þetta,“ segir Gréta í samtali við mbl.is. Hún kveðst ekki hafa búist við sérstöku álagi á sín laun en að upphæð sem þessi sé verri en ekki neitt. 

Flókið að skipta umbuninni á milli starfsfólks

Ríkissjóður lagði Landspítala til milljarð til þess að úthluta síðan til starfsmanna í þessu skyni. Spítalinn útfærði síðan skiptinguna á milli starfsfólks og eins og Páll Matthíasson forstjóri spítalans skrifar í forstjórapistli 19. júní er upphæðin sem hver fær miðuð við viðveru starfsmannsins í mars og apríl. Fyrir þá sem störfuðu á einingum sem komu beint að þjónustu við covid-sjúklinga var hámarkið 250.000 króna umbun, en mjög fáir fengu svo mikið. 

Í pistlinum er talað um að útdeilingin hafi reynst flókin í útfærslu. „En við höfum átt mikið samráð hér á spítalanum vegna þessa og teljum að þetta sé sú leið sem rétt er að fara. Umbunin er þakklætisvottur frá stjórnvöldum sem að mínu mati sýnir skilning á þessu flókna verkefni sem þó er hvergi nærri lokið,“ skrifar Páll. Hvorki hann, aðstoðarmaður hans né framkvæmdastjórar eða forstöðumenn fengu bónus.

90% vinna + 100 tímar af yfirvinnu

Gréta gagnrýnir að þeir sem voru í tímavinnu eins og hún fái svona lítið fyrir sinn snúð. Hún er ekki á föstum samningi heldur vinnur hún vakt fyrir vakt, en hún segir að það eigi ekki að skipta máli. Aðrir hjúkrunarfræðingar sem vinna eftir svipuðu fyrirkomulagi og hún fengu jafnlitla umbun.

Sú sem mest fékk svo að Gréta þekki til var hjúkrunarfræðingur í 90% vinnu sem vann þó hundrað yfirvinnutíma á tímabilinu. Þá var umbunin um 80% af heildarupphæðinni, sem sagt um 200.000 króna bónus.

Launaseðill umbunarinnar.
Launaseðill umbunarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Maður lætur ekki bjóða sér svona framkomu til lengri tíma

Þetta voru erfiðir tímar, að sögn Grétu. „Allir að hjálpast að og allir að fórna einhverju og það gerðu allir með bros á vör, slík var samstaðan og ákefðin um að komast í gegnum þessa tíma saman og reyna að halda sjúklingunum nógu stabílum til þess að koma þeim í gegnum þessa þrekraun, úr öndunarvél og aftur á fætur! Að sjá fólk útskrifast á almenna deild gerði þetta þess virði,“ skrifar hún í stöðuuppfærslu á Facebook, sem hefur vakið nokkur viðbrögð.

„Ég veit bara að maður lætur ekki bjóða sér svona framkomu til lengri tíma.. ég mun samt mæta í næstu bylgju covid, þrátt fyrir að ég verði sennilega enn í fæðingarorlofi.. en það verður einungis gert vegna samvisku minnar gagnvart sjúklingum og samstarfsfólks [sic] og vegna samfélagslegrar ábyrgðar,“ skrifar hún jafnframt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert