Samtök ungra sjálfstæðismanna, SUS, hafa gefið út yfirlýsingu þar sem þeir harma aðgerðaleysi þingmanna Sjálfstæðisflokksins í tengslum við frumvarp um afglæpavæðingu fíkniefna.
Í yfirlýsingunni kemur fram að málefnið hafi verið hluti af stefnu SUS og Sjálfstæðisflokksins í mörg ár og telja samtökin mikilvægt að breytingar verði gerðar á málaflokknum.
Stjórnarþingmenn tóku ekki afstöðu með frumvarpi Pírata um afglæpavæðingu fíkniefna á þingfundi í gær.
„Stríðið gegn fíkniefnum er löngu tapað. Fælingarmáttur refsistefnunnar er minniháttar og afleiðingin er sú að fólk sem glímir við fíknisjúkdóma fær síður þá hjálp sem það nauðsynlega þarf. Mál sem þessi eiga að vera heilbrigðismál, ekki sakamál,“ segir í yfirlýsingu SUS.
Samtökin hvetja síðan ráðherra til að nýta sumarfríið og leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu fíkniefna í haust.
„Frumvarpið sem fellt var í gær var ekki fullkomið, en er samt sem áður skref í rétta átt. Við hvetjum ráðherra Sjálfstæðisflokksins til að nýta sumarfríið vel og leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu fíkniefna sem ríkisstjórnarfrumvarp á haustþingi, til samræmis við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.“